Tillaga um að loka starfsemi Sigluness í Nauthólsvík verður send aftur til íþrótta- og tómstundaráðs til frekari skoðunar.
Um er að ræða hagræðingartillögu meirihluta borgarstjórnar sem fól í sér að fjárheimildir íþrótta- og tómstundaráðs yrðu lækkaðar um 23 milljónir vegna lokunar Sigluness, enda væru miklar breytingar framundan í umhverfi siglinga vegna brúar yfir Fossvog og þörf á umfangsmiklu viðhaldi á húsnæði.
Íþrótta- og tómstundaráð mun fjalla um tillöguna og fer með málið í samráðsferli.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að stefnt hafi verið að því að siglingaklúbbarnir í Reykjavík tækju við þessu starfi með börnum, eins og gilti um aðrar íþróttir. „Við höfum hins vegar fengið margar ábendingar um að það væri bratt að gera það í einu skrefi og að ýmsu sé að huga við útfærsluna. Við ætlum því að senda tillöguna aftur til ÍTR til frekari umfjöllunar og fáum vonandi með í þá vinnu það fólk sem hefur látið sig málið varða undanfarna daga.“