Afganskt flóttafólk sest að í Reykjavík

Velferð Mannréttindi

Hópur flóttafólks frá Afganistan kom til Íslands í gær, 21. desember, og fá þau flest heimili í Reykjavík. það er búið að vera í nógu að snúast hjá starfsfólki samræmdrar móttöku flóttafólks á velferðarsviði Reykjavíkurborgar við að undirbúa komu hópsins til Reykjavíkur.

Í hópnum eru 22 einstaklingar, þar af 14 börn, en flestir sameinast þeir öðrum fjölskyldumeðlimum hér á landi. Þeirra á meðal er barnungur sonur hjón­anna Khairullah Yosu­fi og Zeba Sult­ani sem íslenskir fjölmiðlar hafa talsvert fjallað um. Hjónin urðu viðskila við barnið í upplausnarástandi í heimalandinu og þurftu að skilja tveggja mánaða son sinn, Arsal­an, eft­ir á flugvellinum í Afganistan. Fjölskyldan sameinaðist í gær við mikla gleði foreldranna.

Koma fólksins hingað til lands kemur í kjölfar ákvörðunar íslenskra stjórnvalda um að taka á móti allt að 120 einstaklingum frá Afganistan, vegna valdatöku Talíbana þar í landi. Áhersla var lögð á fólk sem vann með eða fyrir Atlantshafsbandalagið, fyrrverandi nemendur alþjóðlega jafnréttisskólans á Íslandi og einstaklinga sem áttu rétt á fjölskyldusameiningu eða voru þegar komnir með samþykkta umsókn um dvalarleyfi hér á landi.

„það er sérstaklega ánægjulegt að allt þetta fólk hafi getað komið og sameinast fjölskyldum sínum hér,“ segir Edda Ólafsdóttir, sem stýrir teymi samræmdrar móttöku flóttafólks á velferðarsviði. „Það eru margir Afganir sem búa i Reykjavík og ástandið í Afganistan hefur að sjálfsögðu haft mikil áhrif á þá og margir þeirra áhyggjufullir vegna ástandsins í heimalandi sínu,“ segir Edda.

Síðustu daga hefur staðið yfir mikil vinna við að undirbúa komu fólksins, svo sem við að finna íbúðir og skaffa innbú fyrir fjölskyldurnar. Þær munu í framhaldinu fá umfangsmikinn stuðning og þjónustu frá starfsfólki velferðarsviðs Reykjavíkur, sem sinnir samræmdu móttöku flóttafólks.

Þess má geta að á síðustu mánuðum hefur Reykjavíkurborg tekið á móti fimm kvótaflóttafjölskyldum frá Sýrlandi og Afganistan. Edda segir að ómetanlegt hafi reynst að hafa svokallaða menningamiðlara í hópi þess starfsfólks sem undirbýr komu flóttafólks. „Menningarmiðlarar eru einstaklingar af erlendum uppruna sem sjálfir hafa aðlagast hér, tala sömu tungumál og flóttafólkið og þekkir menningu þess vel, sem skiptir miklu máli,“ segir Edda.  Menningarmiðlarar brúa bilið milli ólíkra þjóða og menningarhópa og auðvelda fólki aðlögun í nýju landi.

Meira um komu hóps flóttafólksins frá Afganistan í frétt stjórnarráðsins. Eins og þar kemur fram var aðgerðin flókin og krafðist mikillar samvinnu, bæði innanlands og utan.