Áfangaheimili fyrir konur opnað í Miðborginni

Velferð

""

Fjórtán herbergi verða á nýju áfangaheimili fyrir konur sem opnað verður í miðborginni. Þar verður unnið eftir áfallamiðaðri hugmyndafræði í samstarfi við Landspítalann og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Jafnframt verður gengið til viðræðna við Rótina um rekstur Konukots. 

Borgarráð samþykkti í dag tillögu velferðarráðs um opnun nýs áfangaheimilis fyrir konur í miðborg Reykjavíkur. Í húsinu verða fjórtán góðar einstaklingsíbúðir, ein starfsmannaíbúð og sameiginlegt rými. Áætlað er að kostnaður vegna reksturs áfangaheimilisins verði allt að 25 milljónir króna á ári og að þar verði forstöðumaður í dagvinnu og félagsráðgjafi í hálfu starfi. 

Áfangaheimili er tímabundið húsnæði til að leysa bráðan húsnæðisvanda þeirra sem hafa átt við áfengis- og annan vímuefnavanda að stríða og eru í virkri endurhæfingu eftir meðferð. Markmiðið er að bjóða einstaklingum sem hætt hafa neyslu öruggt heimili, stuðning og aðhald meðan þeir aðlagast samfélaginu á nýjan leik. Í dag eru níu áfangaheimili í Reykjavík, ýmist rekin af félagasamtökum eða Reykjavíkurborg, þar sem rými er fyrir um það bil 200 einstaklinga. 

Að minnsta kosti 25 konur gætu nýtt sér áfangaheimili í Reykjavík, samkvæmt upplýsingum frá Regínu Ásvaldsdóttur, sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Á áfangaheimilinu verður unnið eftir áfallamiðaðri hugmyndafræði með náinni samvinnu við göngudeildarþjónustu Landspítalans og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. 

Opnun áfangaheimilis fyrir konur er mikilvægt skref til að bæta þjónustu við heimilislausar konur í Reykjavík. Uppbygging þjónustu við heimilislausa í Reykjavík hefur á undanförnum árum verið frekar sniðin að þörfum karla en kvenna, líkt og fram kemur í stefnu Reykjavíkurborgar um málefni heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. ,,Húsnæðisvandi kvenna er oft dulinn og tilraunir til að mæta þörfum þeirra með sérstökum úrræðum hafa ekki borið nægilegan árangur. Konur þurfa skjól og öryggi þar sem þeim er mætt á þeirra forsendum,” segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkur. 

Jafnframt hefur velferðarráð falið velferðarsviði að hefja viðræður við Rótina – félag um konur, áföll og vímugjafa – um rekstur Konukots, sem er neyðarskýli fyrir heimilislausar konur. Þetta var samþykkt á fundi velferðarráðs á miðvikudag.

Stefna Reykjavíkurborgar um málefni heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir