Aðgerðir til að styrkja frístundastarfið

Skóli og frístund

""

Borgarráð hefur samþykkt samhljóða tillögur um innleiðingu á nýrri stefnu um frístundaþjónustu í Reykjavík fram til ársins 2025.

Um er að ræða 24 tillögur sem koma til framkvæmda í haust og á næsta ári og fela annars vegar í sér innleiðingu á nýrri frístundastefnu og hins vegar aðgerðir samkvæmt tillögum starfshóps um bætt fagumhverfi frístundastarfsfólks.

Meðal aðgerða sem gripið verður til næsta haust er m.a. að opnunartími félagsmiðstöðva verður lengdur tvisvar í viku fyrir 10-12 ára börn, aukið verður við stuðning fyrir börn og unglinga í félagsmiðstöðvarstarfinu, og stutt verður við listastarf í Breiðholti með því m.a. að fá listamenn til samstarfs. Þá fela aðgerðir í sér aukið framlag til skipulagðra heimsókna barna á menningar- og listastofnanir, stórfundi með ungmennum í öllum hverfum borgarinnar og tilraunaverkefni í tveimur hverfum með það markmiði að auka þátttöku barna með annað móðurmál en íslensku í félagsmiðstöðvastarfinu.

Þá miða samþykktar aðgerðir að því að bæta vinnuumhverfi frístundamiðstöðvanna, s.s. með fleiri undirbúningstímum fyrir starfsfólk, námskeiðum, betri móttöku fyrir nýtt starfsfólk, markvissari samstarfi frístundaheimila og félagsmiðstöðva við grunnskólana og heilsársopnun frístundaheimilanna.

Sjá yfirlit yfir hverja og eina tillögu og kostnaðaráætlun.
Sjá stefnu um frístundaþjónustu í Reykjavík fram til ársins 2025.

Aukið vægi listnáms
Borgarráð samþykkti einnig tvo samninga sem styrkja stöðu listnáms í borginni. Annars vegar þjónustusamning við Myndlistaskóla Reykjavíkur sem felur í sér meiri kennslu fyrir leikskóla- og grunnskólabörn og hins vegar þjónustusamning um aukið kennslumagn sem gerður var við sameinaðan skóla Tónmenntaskóla Reykjavíkur og Tónlistarskólans í Reykjavík.

Sjá fundargerð frá fundi borgarráðs.