Aðgerðir til að efla þjónustu dagforeldra

Skóli og frístund

""

Samþykkt var í dag á fundi skóla- og frístundaráðs að ráðast í margháttaðar aðgerðir til efla dagforeldraþjónustu í Reykjavíkurborg.

Samþykkt var í dag á fundi skóla- og frístundaráðs að ráðast í margháttaðar aðgerðir til efla dagforeldraþjónustu í Reykjavíkurborg.

Meðal þess sem lagt er til í samþykktinni er að dagforeldrar vinni tveir og tveir saman og að borgin leggi til húsnæði. Þá er lagt til að niðurgreiðslur til dagforeldra í borginni hækki um 15% og veittur verði stofnstyrkur að upphæð 300 þúsund til þeirra en þó með því skilyrði að þeir starfi í að minnsta kosti ár.

Einnig verða veittir námsstyrkir til dagforeldra og faglegur stuðningur við þá verður aukinn. Innleitt verður ytra mat á daggæslu með vísan í gæðaviðmið sem þróuð hafa verið í samvinnu við félög dagforeldra.  Auka á upplýsingagjöf og sérstakt námsefni verður gefið út fyrir dagforeldra af erlendum uppruna.

Styrkja á ráðgjöf til dagforeldra og auka eftirlit með þeim. Lagt er til að Heilbrigðiseftirlitið veitir starfsleyfi til daggæslu hvort sem um er að ræða að dagforeldri sem er einyrki eða dagforeldra sem starfa saman. Daggæsluráðgjafar á þjónustumiðstöðum fari að lágmarki í tvær heimsóknir á ári til dagforeldra, leiðbeini og veiti ráðgjöf.

Að lokum má nefna að Reykjavíkurborg mun leita leiða til að verja foreldra fyrir fyrirvaralausri uppsögn dagforeldra.

Aðgerðirnar taka gildi 1. janúar á næsta ári og áætlað er að heildarkostnaður vegna þessara aðgerða verði tæplega 61 m. kr. ef frá er talinn húsnæðiskostnaður.

Tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna varðandi dagforeldraþjónustu

Skýrsla starfshóps um endurskoðun, þróun og breytingar á dagforeldraþjónustu Reykjavíkurborgar