Aðgengi og aðstaða í nýju Sundhöllinni | Reykjavíkurborg

Aðgengi og aðstaða í nýju Sundhöllinni

föstudagur, 26. janúar 2018

Sundhöllin hefur opnað á ný eftir miklar endurbætur og m.a. hefur verið byggð upp aðgengi og aðstaða fyrir hreyfihamlað fólk. Lyftur eru milli hæða, breiðari aðgangshlið, salerni og búningsklefar fyrir hreyfihamlaða, auk handfestu í potta og lyftu í heitan pott og í útilaug. Í fjárhagsáætlunum er einnig gert ráð fyrir að bæta aðstöðu í gamla hluta laugarinnar.

 • Ferlinefnd borgarinnar.
  Bryndís Snæbjörnsdóttir, Bergur Þorri Benjamínsson, Magnús Már Guðmundsson, Anna Kristinsdóttir, Ragnheiður Gunnarsdóttir, Tómas Ingi Adolfsson, Ingólfur Már Magnússon og Lilja Sveinsdóttir ásamt blindrahundinum Olíver.
 • Lilja, Bergur Þorri og blindrahundurinn Olíver prófa lyftuna.
  Lilja, Bergur Þorri og blindrahundurinn Olíver prófa lyftuna.
 • Búningsklefar fyrir hreyfihamlaða eru vel búnir og rúmgóðir.
  Búningsklefar fyrir hreyfihamlaða eru vel búnir og rúmgóðir.
 • Hér skoðar ferlinefndin lyftuna ofan í sundlaugina sjálfa.
  Hér skoðar ferlinefndin lyftuna ofan í sundlaugina sjálfa.
 • Hér kannar nefndin stólalyftuna sem hægt er að nota ofan í heita pottinn.
  Hér kannar nefndin stólalyftuna sem hægt er að nota ofan í heita pottinn.

Ferlinefnd Reykjavíkur fundaði í Sundhöll Reykjavíkur, 25. janúar, þar sem breytingar á lauginni voru mál málanna og bæði starfsmenn og nefndarmenn ferlinefndar voru ánægð með breytingar á lauginni.

Formaður nefndarinnar, Magnús Már Guðmundsson, sagði það er mjög ánægjulegt að sjá hversu vel var hugað að aðgengismálum við hönnun nýja hússins og útisvæðisins. „Útkoman er glæsileg og aðgengið gott þó að hluti gamla hússins verði væntanlega alltaf erfiðari yfirferðar. Nefndin hefur lagt sérstaka áherslu á sundlaugar borgarinnar undanfarin misseri sem miðar að því að bæta aðgengi allra að þessum frábæru laugum sem við Reykvíkingar eigum“.

Starfsmenn Sundhallarinnar ræddu við ferlinefnd og sögðu hver reynslan væri frá opnun laugarinnar. Aðsókn að lauginni hefur aukist verulega eftir breytingar en enn hefur enginn nýtt sér lyfturnar í heita pottinn og ofan í útilaugina.  Hins vegar hafa ýmsir nýtt sér búningsatstöðu fatlaðs fólks, m.a. íbúar sambýla sem þurfa mikla aðstoð, konur sem hafa farið í brjóstnám og einstaklingar í kynleiðréttingarferli. Það var álit allra að fjölga mætti klefum fyrir hreyfihamlaða og tækifæri eru til þess með endurbótum á búningsaðstöðu í gamla hluta laugarinnar.

Ferlinefnd fatlaðs fólks er skipuð sjö fulltrúum en Öryrkjabandalag Íslands tilnefnir þrjá í nefndina, Þroskahjálp einn og Félag eldri borgara í Reykjavík einn. Tveir fulltrúar eru kjörnir af borgarstjórn en Magnús Már Guðmundsson, varaborgarfulltrúi, er formaður nefndarinnar.