Í komandi haustfríi munu 602 börn í Reykjavík ekki mæta í leikskólann sinn þá daga sem grunnskólarnir verða í fríi eða rétt tæplega níu prósent. Borgarráð samþykkti fyrr á þessu ári að hægt sé að sækja um niðurfellingu á leikskólagjöldum barna sem ekki sækja leikskóla í dymbilviku og virka daga í vetrarleyfum grunnskóla. Slíkt fyrirkomulag hefur verið í gildi í nokkur ár á milli jóla og nýárs og hefur reynst vel.
Sækja þarf um niðurfellinguna
Til að fá gjöldin felld niður þurfti að sækja um niðurfellingu fyrir tilgreindan umsóknarfrest. Niðurfellingin á aðeins við ef frí er tekið alla virka daga haustfrís grunnskólanna. Það sama gildir fyrir hin tímabilin, það er í dymbilviku, í vetrarfríinu eftir áramót og milli jóla go nýárs.
Hefur reynst vel dagana á milli jóla og nýárs
Borgarráð samþykkti síðla árs 2018 að foreldrar gætu sótt um niðurfellingu gjalda virka daga milli jóla og nýárs að því tilskildu að leyfi væri tekið alla dagana. Fyrirkomulagið hefur nú fest sig í sessi í Reykjavík og hafa margar fjölskyldur nýtt sér þennan möguleika á liðnum árum eða 47 til 61 prósent.
Með því að sótt sé um niðurfellinguna fyrirfram verður barnafjöldi á leikskólum þessa daga fyrirséðari. Þannig standa vonir til að hægt verði að skipuleggja leikskólastarfið betur með tilliti til barnafjölda og að svigrúm skapist til að leyfa orlofstöku eða að starfsfólk geti tekið út uppsafnaða styttingu vinnuviku.