Ný könnun á ferðavenjum opinberar góðan vilja til að breyta ferðavenjum á höfuðborgarsvæðinu. 70 ára og eldri halda fast í stýrið en yngri kynslóðin vill helst nota aðrar leiðir til að fara til og frá vinnu.
Flestir sögðust fara á bíl til og frá vinnu eða tæplega 80% þegar spurt var „Hvernig ferðast þú oftast til og frá vinnu?“ í nýrri ferðavenjukönnun, ef horft er bæði til þeirra sem aka og eru farþegar. Ef spurt var aftur á móti „Hvernig værir þú helst til að ferðast í vinnuna?“ þá breytist hlutfallið verulega eða 50% af þeim sem ferðast á bíl myndu fremur vilja ferðast með öðrum hætti.
Þetta kemur fram í ferðavenjukönnun sem Maskína gerði fyrir Reykjavíkurborg í júní en þetta er í fjórða sinn sem hún er gerð með þessum hætti. Hún fjallar um ferðavenjur íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Hvernig þeir ferðast úr og í vinnu og hvernig þeir myndu helst vilja ferðast úr og í vinnu. Könnunin fór fram daga 3. til 30. júní 2021 og voru svarendur 1571 talsins. Fyrsta val aðspurðra er að vera á einkabíl sem bílstjóri eða tæp 75%. Ef svarið er skoðað út frá búsetu ferðast um 70% Reykvíkinga á slíkan hátt en tæp 82% í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.
13% bílstjóra vilja helst ferðast á reiðhjóli
Spurningin „Hvernig værir þú helst til að ferðast í vinnuna?“ veitir innsýn í möguleikana því af þessum 75% sem fara sem bílstjórar á einkabíl segjast 59%, eða aðeins þrír af hverjum fimm, vilja fara á bílnum til og frá vinnu. Ríflega 40% vilja helst fara með öðru móti. Slétt 13% bílstjóra væru helst til að ferðast á reiðhjóli, á milli 12-13% fótgangandi og um 8% í strætó.
Af heildarsvörum má sjá að 6,6% hjóla og 8,2% ganga til og frá vinnu. Þessi tala hækkar í um 18% í hvorum hópi þegar spurt er „Hvernig værir þú helst til að ferðast í vinnuna?“
Hjólandi og fótgangandi ánægðir
Hjólandi og fótgangandi vegfarendur virðast ánægðir með þennan ferðamáta sem gefur til kynna að aðstæður til þessar ferðamáta séu ágætar, því um 83% fótgangandi vilja ganga áfram og 91-92% vilja hjóla áfram til og frá vinnu.
Fleiri til í að nota almenningssamgöngur
Slétt 4% aðspurðra fara til og frá vinnu með strætó en tvöfalt fleiri væru helst til í að ferðast með almenningssamgöngum. Ef ekki, þá vill þessi hópur annað hvort ganga eða hjóla til og frá vinnu.
Lægsta hlutfall svarenda sem eru einir í bíl eru í miðborg, Vesturbæ og á Seltjarnarnesi og tæplega 60% þeirra væru helst til í að hjóla eða ganga til vinnu. Þessi hópur velur helst að hjóla eða ganga til og frá vinnu. Áhugavert er að skoða prósentustigamun í hverfum á milli núverandi ferðamáta og þess ferðamáta sem menn vilja nota. Í Breiðholti/Árbæ eru t.d. 89,1% sem ferðast oftast á bíl sem bílstjórar en 66,3% myndu helst vilja ferðast til og frá vinnu á þann máta. Munurinn þar er því 22,8 prósentustig.
Yngri kynslóðin fækkar bílferðum
Ef markmiðið er að fækka bílferðum til og frá vinnu, þá virðast liggja tækifæri til þess í hverju hverfi í Reykjavík. Yngri bílstjórar hafa greinilega meiri áhuga til þess en eldri bílstjórar.
Áhugavert er að sjá muninn á milli kynslóða en rúmlega 41% þeirra sem eru 18-29 ára vilja helst fara á einkabíl og segja má að minnihluti 50 ára og yngri vilji fara á bílnum, en um 72% sjötíu ára og eldri vill fara á honum.
Menntun er áhrifaþáttur, því slétt 72% þeirra sem eru með grunnskólaskólapróf vilja vera á einkabíl en 42-43% þeirra sem lokið hafa háskólaprófi.
Tengill
Ferðavenjur - könnun Maskínu fyrir Reykjavíkurborg
Niðurstöðurnar þegar spurt var:
„Hvernig ferðast þú oftast til og frá vinnu?“
Á einkabíl sem bílstjóri | 74,7% |
Á einkabíl sem farþegi | 4,0% |
Á reiðhjóli | 6,6% |
Fótgangandi | 8,2% |
Í strætó | 4,0% |
Á rafmagnshjóli (rafskútu) | 0,8% |
Á bifhjóli | 0,2% |
Á annan hátt | 1,5% |
„Hvernig værir þú helst til að ferðast í vinnuna?“
Á einkabíl sem bílstjóri | 46,3% |
Á einkabíl sem farþegi | 3,0% |
Á reiðhjóli | 17,8% |
Fótgangandi | 18,0% |
Í strætó | 8,8% |
Á rafmagnshjóli (rafskútu) | 3,1% |
Á bifhjóli | 0,9% |
Á annan hátt | 2,1% |