2,6 milljarða afgangur fyrstu þrjá mánuðina | Reykjavíkurborg

2,6 milljarða afgangur fyrstu þrjá mánuðina

fimmtudagur, 24. maí 2018

Þriggja mánaða óendurskoðað uppgjör Reykjavíkurborgar var lagt fram í borgarráði í morgun. A-hluti borgarinnar skilar 2,6 milljarða króna afgangi.

  • Loftmynd af Reykjavík.
    Rekstur borgarsjóðs gengur vel og þriggja mánaða uppgjör A-hlutans sýnir 2,6 milljarða króna afgang.

Fjármálaskrifstofa kynnti óendurskoðað rekstraruppgjör A-hluta Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið janúar – mars 2018 á fundi borgarráðs í morgun. Uppgjörið er gert í samræmi við sveitarstjórnarlög, lög um ársreikninga og reglugerð um bókhald, fjármál og ársreikninga sveitarfélaga.

Samkvæmt uppgjörinu er rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð um 2.638 mkr en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði neikvæð um 308 mkr á tímabilinu. Niðurstaðan er því 3.095 mkr betri en áætlað var. Betri niðurstaða skýrist helst af hærri tekjum af sölu byggingarréttar sem reyndust 3.095 mkr en áætlun gerði ráð fyrir 585 mkr á þessu tímabili.

„Uppgjörið sýnir sterkan rekstur. Við höfum haldið vel á spöðunum og rekstur borgarinnar gengur vel. Þetta uppgjör sýnir það svart á hvítu,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 3.075 mkr en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 155 mkr þannig að niðurstaðan var 2.920 mkr yfir áætlun.