Nemendaverðlaun skóla- og frístundaráðs voru afhent við hátíðlega athöfn í Árbæjarskóla í gær, mánudaginn 5. júní 2023. Þetta er í tuttugasta og fyrsta sinn sem verðlaunin eru afhent til nemenda í grunnskólum borgarinnar sem skara fram úr í námi og starfi.
Verðlaunað fyrir margvíslega hæfni og árangur
Alls voru 22 nemendur verðlaunaðir sem þykja skara framúr í námi, félagsfærni, virkni í félagsstarfi eða hafa sýnt frábæra frammistöðu á tilteknu sviði skólastarfs. Þess má geta að aldur þeirra nemenda sem tilnefndir voru í ár spannar árgangana frá fjórða til tíunda bekkjar grunnskólans sem sýnir að nemendur á öllum aldri geta skarað fram úr á ýmsum sviðum og verið góðar fyrirmyndir.
Verðlaunahafar fengu bókarverðlaun. Þau yngri fengu bókina Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur sem fékk Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 2023 í flokki frumsamins efnis, Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka og Fjöruverðlaunin 2023.
Nemendur í 7.- 10. bekk fengu bókina Drengurinn með ljáinn eftir Ævar Þór Benediktsson sem hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda.
Nemendur í Árbæjarskóla sýndu atriði úr söngleiknum Mamma Mía sem þau settu upp í vetur og gerðu skemmtilega verðlaunaafhendingu enn betri.