Þörf á fjölbreyttari úrræðum til að mæta breyttri samfélagsgerð

Fatahengi í skóla fullt af unglingalegum úlpum.

Tilkynningum til Barnaverndar Reykjavíkur hefur fjölgað á síðustu árum og þær tóku kipp á árunum 2024 og 2025. Framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur telur fjölgunina meðal annars koma til af aukinni umræðu í samfélaginu, auknum vanda barna, flóknari samfélagsgerð, auk þess að tilkynningar um sum börn berist ítrekað.

Fjöldi barna sem tilkynnt eru um til Barnaverndar Reykjavíkur er ekki að aukast með sama hætti og fjöldi tilkynninga. Þetta segir Elísa Ragnheiður Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur. Ástæðuna telur hún meðal annars vera þá að ítrekað er tilkynnt um sömu börnin til barnaverndaryfirvalda vegna þess að vandi barna sé þyngri og alvarlegri en áður. 

Stöplarit sem sýnir fjölda tilkynninga til Barnaverndar Reykjavíkur.

Einnig hafi áhrif að bið eftir úrræðum sé of löng. Þetta kemur meðal annars til vegna þess að á meðan beðið er eftir plássi í meðferð þá eru einungis vægari úrræði í boði sem oft duga ekki til. Þetta á til dæmis við um ungmenni sem sýna af sér áhættuhegðun og þurfa að komast í langtímameðferð í úrræðum hjá Barna- og fjölskyldustofu. Auk þess sé þörf á fjölbreyttari úrræðum til þess að mæta breyttri samfélagsgerð. 

Sextíu manns sinna fjölbreyttum störfum hjá Barnavernd Reykjavíkur

Starfsemi Barnaverndar Reykjavíkur er umfangsmikil en þar starfa sextíu manns í um það bil 58 stöðugildum. Þar starfa félagsráðgjafar, sálfræðingar, lögfræðingar, deildarfulltrúar og ráðgjafar. Það er markmið og hlutverk Barnaverndar Reykjavíkur að tryggja réttindi barna til verndar, umönnunar og velfarnaðar. Það er gert með því að veita börnum og fjölskyldum nauðsynlega aðstoð í gegnum stuðningsúrræði en getur einnig falist í því að beita þvingunarúrræðum með það að markmiði til að vernda börn.

Elísa segir svo mikla fjölgun tilkynninga hafa áhrif á alla starfsemi Barnaverndar Reykjavíkur og auka álag á starfsfólk. Þá sé mikilvægt að halda því til haga að þrátt fyrir að fjöldi barna sem tilkynnt er um sé ekki að aukast jafnhratt og tilkynningarnar sjálfar sé vandi barnanna sem tilkynnt er um í mörgum tilvikum alvarlegri en áður. Það sýni sig best í því að mál barna sem tekin voru til vinnslu í kjölfar tilkynninga eða voru þegar í vinnslu þegar tilkynning barst voru um 200 fleiri árið 2025 en árið 2024, líkt og eftirfarandi mynd sýnir: 

Stöplarit sem sýnir fjölda mála í vinnslu hjá Barnavernd Reykjavíkur.

Þannig sé málum hjá Barnavernd Reykjavíkur að fjölga, auk þess sem málin eru umfangsmikil og flókin og krefjast mikils af starfsfólkinu sem eigi hrós skilið fyrir sína vinnu í þágu barna og fjölskyldna í Reykjavík. 

Mikilvægra úrræða að vænta á næstu mánuðum

Elísa sagði úrræðaleysi fyrir ungmenni með fjölþættan vanda mikið áhyggjuefni. Breytinga væri hins vegar að vænta sem verði mjög til bóta. Til að mynda sé þess að vænta að meðferðarheimilið á Lækjarbakka opni að nýju í febrúar og þá hafi Barna- og fjölskyldustofa nýlega stofnað sérstakt meðferðarsvið til þess að efla enn frekar sín úrræði, sem sé gott skref. Þar sé unnið að stofnun úrræða vegna barna og ungmenna með fjölþættan vanda sem sé löngu tímabært. 

Þörf á fjölbreyttari hópi fósturforeldra

Eitt af því sem Elísa benti á í yfirferð sinni er að mikilvægt sé að fjölga fósturforeldrum og að hópurinn verði af fjölbreyttari uppruna en nú er. Því mati Barnaverndar Reykjavíkur hafi verið komið á framfæri við Barna- og fjölskyldustofu sem hefur það hlutverk að meta þau sem vilja gerast fósturforeldrar, sér um fræðslu til fósturforeldra og heldur skrá yfir þá sem hafa leyfi til að taka börn í fóstur. Mikilvægt sé að börn af erlendum uppruna hafi tækifæri til að halda í sitt móðurmál og sína menningu, þrátt fyrir að þau fari í fóstur. 

Áhersla á þverfaglega teymisvinnu

Elísa lýsti því að stöðugt sé unnið að umbótum í starfi Barnaverndar. Þannig sé mikil áhersla lögð á faglega stjórnsýslu og þverfaglega teymisvinnu, einkum í þeim málum þar sem taka þarf íþyngjandi ákvarðanir í málefnum fjölskyldna og barna. Í því samhengi felist mikill styrkleiki í stærðinni hjá Barnavernd Reykjavíkur þar sem starfar stór og samhentur hópur fagfólks. Á sama tíma feliåst miklar áskoranir í fjölgun tilkynninga og mála sem tekin eru til vinnslu hjá stofnuninni. Á undanförnum árum hafi verið lögð mikil áhersla á að innleiða ferla sem tengjast farsældarlögunum og Betri borg fyrir börn, sem er leið Reykjavíkurborgar til innleiðingar farsældarlaganna. Jafnframt eigi sér stað mikil umræða varðandi það að bæta úrræði innan miðstöðva borgarinnar, svo mál barna komi síður inn á borð Barnaverndar. Þá sé nú verið að undirbúa innleiðslu verklagsins Merki um öryggi (Signs of safety) sem Barna- og fjölskyldustofa stýrir. 

Elísa fór yfir stöðuna í Barnavernd Reykjavíkur á fundi velferðarráðs í liðinni viku. Hér má skoða fundargerðina frá þeim fundi.