Saman gegn ofbeldi - Bætt verklag og betri yfirsýn
Margmennt var á ráðstefnu Saman gegn ofbeldi síðastliðinn fimmtudag sem haldin var af því tilefni að verkefnið hefur verið starfandi í áratug.
Saman gegn ofbeldi - hvað hefur áunnist
Saman gegn ofbeldi er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Kvennaathvarfsins, Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu og Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.
Á ráðstefnunni var litið um öxl og skoðað hvað hefur áunnist í baráttunni gegn heimilisofbeldi frá því að verkefnið hófst.
Halldóra Dýrleifar Gunnarsdóttir og Marta Kristín Hreiðarsdóttir fjölluðu um ávinning af verklagi því sem komið var á með verkefninu Saman gegn ofbeldi og um viðhorfsbreytingar í samfélaginu.
Samstarf milli aðila lykilatriði
Þegar útkall berst lögreglu þar sem barn eða börn eru á vettvangi fer starfsmaður barnaverndar og ráðgjafi á miðstöð með lögreglunni í útkall. Aðkoma félagsþjónustu/miðstöðvar í útköllum er til bóta fyrir foreldra barnanna sem eiga greiðari leið en áður að þjónustu á vegum miðstöðvar. Þá er öllum börnum sem grunur leikur á að hafi orðið vitni að ofbeldi á heimili sínu boðin viðtöl hjá sálfræðingi barnaverndar sem og foreldrum þeirra.
Elfa María Geirsdóttir, félagsráðgjafi og Guðmundur Ásgeirsson, lögreglumaður, tóku einnig til máls og sögðu að verklag félagsþjónustu og lögreglu á vettvangi hafi breyst til hins betra.
Þátttakendur í verkefninu eru sammála um að gott samstarf milli stofnana sé lykilatriði, og tenging við grasrótina og háskólasamfélagið skipti miklu máli, þá er einnig mikilvægt að kjörnir fulltrúar hafi skilning og þekkingu á heimilisofbeldi og hlustað sé á brotaþola og stöðugt leitað leiða til að gera betur í þeim efnum.
Ný lagaákvæði um heimilisofbeldi
Breytingar hafa átt sér stað á hegningarlögum, lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili, lögreglulögum, lögum um heilbrigðisstarfsmenn, hjúskaparlögum og barnalögum. Þessar breytingar fela m.a. í sér ný lagaákvæði um heimilisofbeldi þar sem horft er til ítrekunar og alvarleika, umsáturseinelti, sem áður var ekki til sem sérstakt ákvæði og nýtt ákvæði um kynferðislega friðhelgi. Hægt er að sækja um lögskilnað án sérstakrar ástæðu og skerpt var á réttindum barna til að tjá sig við sáttameðferð ef hægt er og að tekið sé tilliti til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska.
Aukin þekking - betri yfirsýn - bætt þjónusta
Með aukinni fræðslu, þjálfun og samráði hefur fengist aukin þekking á heimilisofbeldi innan borgarinnar. Starfsfólk heilbrigðisþjónustu hefur hlotið aukna þjálfun, lögreglan tekið upp nýtt verklag og gæðahandbók. Sýslumaður tók upp sérstakt verklag fyrir þolendur ofbeldis árið 2018 sem felur í sér að þolendur eru í forgangi og geta mætt í viðtal í skilnaðarferlinu án maka. Boðið er upp á túlkaþjónustu í gegnum síma.
Með verkefninu varð betri tenging og eftirfylgni með konum sem koma til dvalar í Kvennaathvarfinu, upplifunin af þjónustunni er jákvæð og konurnar finna fyrir öryggi. Mikið hefur einnig áunnist í skráningum heimilisofbeldismála þar sem tölfræðiupplýsingum um útköll er safnað og birt sem gefur betri yfirsýn.
Hjartað í verkefninu
Kristín Anna Hjálmarsdóttir, kynjafræðingur og sjálfstæður rannsakandi gerði úttekt á Saman gegn ofbeldi 2015-2025 verkefninu sem ber heitið „Stýrihópurinn er hjartað í verkefninu“. Í máli hennar á ráðstefnunni kom fram að breytt verklag, þar sem ábyrgð, þekking og ákvarðanir þvert á kerfi, hafi skipt sköpum. Stýrihópurinn er samkvæmt úttektinni kjarninn í samstarfinu og forsenda samfellu og árangurs í þessu þverfaglega samstarfi.
Að loknum erindum bauðst gestum að taka þátt í vinnustofum þar sem horft var fram á veginn og greint var hvar má gera betur í hinum ýmsu málaflokkum. Til umræðu voru meðal annars börn, á öllum aldri, sem beita foreldra ofbeldi, hinsegin og heimilisofbeldi og aldraðir og heimilisofbeldi. Unnið verður úr ábendingum og niðurstöðum vinnuhópanna.