Hækkun á styrk svifryks í borginni

Stefnt er að því að rykbinda í nótt til að draga úr uppþyrlun ryks. Rykbinding er samvinnuverkefni Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar. Gert er ráð fyrir svipuðum veðuraðstæðum um helgina en vonir standa til að rykbinding muni draga úr svifryksmengun.
Svifryk

Styrkur svifryks (PM10) hefur mælst hár í loftgæðamælistöðum í borginni í morgun. Uppruni ryksins er frá umferð en þar sem götur eru þurrar eru gildi einnig há á stöðvum fjær stórum umferðaræðum. Kl. 12:00 var gildið fyrir PM10 171,4 míkrógrömm á rúmmetra í mælistöðinni við Grensásveg en til samanburðar má benda á að sólarhringsheilsuverndarmörkin eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. 

Rykbinding í nótt

Stefnt er að því að rykbinda í nótt til að draga úr uppþyrlun ryks. Rykbinding er samvinnuverkefni Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar. Gert er ráð fyrir svipuðum veðuraðstæðum um helgina en vonir standa til að rykbinding muni draga úr svifryksmengun.

Þau sem eru viðkvæm fyrir í öndunarfærum, aldraðir og börn ættu að forðast útivist í lengri tíma og takmarka áreynslu. Almenningur er hvattur til þess að draga úr notkun einkabílsins ef unnt er, svo sem geyma ferðir sem ekki eru aðkallandi, nýta sér frekar almenningssamgöngur, sameinast í bíla eða nota aðra vistvæna samgöngumáta. Skorað er á fyrirtæki að hvetja starfsfólk til að vinna fjarvinnu á svifryksdögum sé þess kostur og draga úr akstri ef hægt er.  

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til. Hægt er að fylgjast með styrk svifryks og annarra mengandi efna á loftgæði.is. Þar má sjá kort yfir mælistaði í Reykjavík og annars staðar á landinu. 

Svifryk er fínasta gerð rykagna sem eiga greiða leið í öndunarfærin en heilsuverndarmörk miðast við 50 míkrógrömm á rúmmetra á sólarhring fyrir PM 10 (svifagnir um 10 míkrógrömm að stærð). Helsti uppruni svifryks er uppspænt malbik, sót aðallega frá díselbruna, jarðvegsagnir, salt, aska og fleira.