Stockfish kvikmyndahátíðin er hafin
Kvikmyndahátíðin Stockfish hefst í dag og mun standa til 13. apríl næstkomandi. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá og meðal annars sýndar 20 sérvaldar alþjóðlegar verðlaunamyndir á hátíðinni.
Stockfish er kvikmynda- og bransahátíð fagfólks í kvikmyndageiranum og er haldin í Bíó Paradís og víðar um borgina. Hátíðin er haldin árlega í apríl og stendur yfir í 11 daga, 3. - 13. apríl 2025. Stockfish er styrkt af Reykjavíkurborg, enda er eitt af markmiðum borgarinnar að efla hverskonar listgreinar og glæða menningarlíf borgarinnar.
Markmið Stockfish er að þjóna samfélaginu sem hátíðin sprettur úr, efla og auðga kvikmyndamenningu á Íslandi árið um kring og vera íslenskum kvikmyndaiðnaði lyftistöng bæði erlendis og innanlands. Hátíðin leggur áherslu á að tefla fram metnaðarfullri dagskrá fyrir hátíðargesti og eru t.a.m. einungis sýndar yfir 20 sérvaldar alþjóðlegar verðlaunamyndir á hátíðinni.
Bransadagar
Bransadagarnir á Stockfish er vettvangur fyrir öflugt samtal innan greinarinnar. Tilgangur þeirra er að gefa rými til að tengja fólk saman og mynda sterk og gagnleg sambönd milli fagfólks í íslenskri og erlendri kvikmyndagerð. En einnig að skapa og opna tækifæri fyrir fjölbreytni og nýsköpun í greininni.
Um fjörutíu alþjóðlegir gestir sækja hátíðina heim á hverju ár, aðallega fjölmiðlafólk og fagfólk úr iðnaðinum sem kemur sérstaklega til að taka þátt Bransadögum.
Sprettfiskur
Sprettfiskur er haldinn í fjórum keppnisflokkum þar sem leikið efni, heimildaverk, tilraunaverk og tónlistarmyndbönd eru aðskilin. Flokkarnir eru fjórir til að endurspegla þá grósku og fjölbreytni sem er í kvikmyndagerð hér á landi. Markmið keppninnar er að vekja athygli á upprennandi kvikmyndagerðarfólki og hvetja til góðra verka með verðlaunum sem geta lagt grunninn að næsta verkefni.
Heiðursgestur Stockfish
Dóra Einarsdóttir er heiðursgestur hátíðarinnar í ár og á að baki 50 ára feri í heimi kvikmynda, leikhús, óperu og balletts. Dóra hefur unnið fjölbreytt störf í kvikmyndabransanum og barist fyrir framgangi fagsins frá upphafi. Framlag hennar og arfleið til kvikmyndagerðar bæði hér heima og erlendis á sér fáar hliðstæður og fyrir það á hún heiður skilið.
Kynnið ykkur fjölbreytta dagskrá kvikmyndahátíðarinnar Stockfish.