Allt að 180 íbúðir verða á reit á Ártúnshöfða hjá BM Vallá við Fornalund en lundurinn sem er gróðursælt útivistarsvæði verður varðveittur. Auk íbúða verður möguleiki á atvinnustarfsemi á jarðhæðum við Breiðhöfða. Í þeim núverandi byggingum sem verða varðveittar er gert ráð fyrir minniháttar hreinlegri atvinnustarfsemi, til dæmis verslun. Nýtt deiliskipulag fyrir Ártúnshöfða 7a var samþykkt í auglýsingu í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar í morgun.
Myndir
Þetta er fyrsti deiliskipulagsáfangi á lóð BM Vallár en þarna er ekkert deiliskipulagi í gildi í dag. Fornilundur er innan þessa svæðis og verður varðveittur garður í borgarlandi. Honum verður gert hátt undir höfði og tengdur við græna ásinn sem gert er ráð fyrir á Ártúnshöfða.
Opinn, samnýtanlegur bílakjallari verður undir einni lóðinni með samtals 147 bílastæðum en til viðbótar verða nokkur stæði á yfirborði, bæði á borgarlandi og innan lóða. Ekki gert ráð fyrir bílaumferð á yfirborði innan lóða.
Tvö hús fá nýtt hlutverk
Fjögur hús eru á lóðinni í dag og munu tvö þeirra standa áfram og fá nýtt hlutverk. Það eru húsin sem nú hýsa skrifstofur og söluskrifstofur BM Vallár. Annað húsið sem verður fjarlægt er norðan við söluskrifstofur BM Vallár og hýsir verslun og lager en hitt er vestantil á svæðinu og er í dag verkstæði og starfsmannaaðstaða.
Á svæðinu verða blandaðar íbúðagerðir og gert er ráð fyrir hærri salarhæð á götuhæðum. Húsagerðir eru langhús, miðhús og punkthús, fjögurra til sjö hæða, og verða þök hallandi. Gert er ráð fyrir því að íbúðir hafi glugga til að minnsta kosti tveggja átta og verður lögð áhersla á góð dagsbirtuskilyrði.
Áhersla í hönnun grænna dvalar- og leiksvæða
- Áhersla á algilda hönnun líffræðilegan fjölbreytileika og gróðurvænt yfirborð. Tryggja skal fjölbreytni í árstíðarlitum.
- Dvalarsvæði á lóð skulu vera að minnsta kosti 20% af birtum fermetrum íbúðarhúsnæðis. Skjólrík og fjölbreytt.
- Fjögur leiksvæði. Gera þarf ráð fyrir mismunandi þemum.
- Gert ráð fyrir sérafnotaflötum sem tengjast sameiginlegum garði.
- Byggingarreitir á lóð fyrir sameiginleg garðhýsi.
Blágrænar ofanvatnslausnir verða hafðar að leiðarljósi við hönnun útisvæða, til þess að styðja við heilbrigt, fallegt, grænt og fjölskrúðugt umhverfi. Gerð er sú krafa í deiliskipulaginu að lóðarhönnun verði gerð af landslagshönnuði og heildarhönnun skuli skila inn til byggingarfulltrúa.
Tillögunni var vísað til borgarráðs. Skipulagsgögnin verða gerð aðgengileg inn á skipulagsgatt.is á næstunni eftir afgreiðslu borgarráðs og þá gefst öllum tækifæri til að koma með ábendingar á auglýsingatíma.