Reykjavíkurborg tekur þátt í átakinu „Þín íslenska er málið“

Kona í farsíma

Stafrænt ráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum 26. nóvember 2025 að borgin taki þátt í heimildasöfnunarátaki Almannaróms, „Þín íslenska er málið“.

 Markmið átaksins er að styrkja íslenska tungu í stafrænum lausnum. Í átakinu er safnað almennum textum frá fyrirtækjum og stofnunum. Þessi gögn fara í stórt íslenskt orðasafn, sem nýtist til að bæta íslenskar tal- og textalausnir, svo sem tæknina á bak við þýðingar, raddstýringu og spjallmenni. Betri gögn skila sér í betri tækni sem þjónar íslensku samfélagi.

„Þetta er einstakt tækifæri til að styðja við þróun íslenskrar tækni og tryggja að íslenskan haldi áfram að dafna í stafrænum heimi,“ segir Alexandra Briem, formaður stafræna ráðsins. „Með þátttöku okkar getum við lagt til fjölbreyttan orðaforða úr starfsemi borgarinnar og þannig stutt áframhaldandi þróun máltækni sem kemur bæði íbúum og atvinnulífinu til góðs.“

Reykjavíkurborg telur mikilvægt að taka þátt í verkefninu og leggja sitt af mörkum til að tryggja sterka stöðu íslenskunnar í framtíðarlausnum og stafrænu samfélagi.