Rekstrarniðurstaða rúmum níu milljörðum betri en í fyrra
Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið janúar-september 2025 var afgreiddur í borgarráði í dag, fimmtudaginn 4. desember.
Rekstrarniðurstaða samantekins árshlutareiknings Reykjavíkurborgar, A- og B- hluta, var jákvæð um 10,7 milljarða króna. Það er 9,1 milljarði króna betri niðurstaða en á sama tímabili árið 2024. Matsbreyting fjárfestingaeigna hjá Félagsbústöðum hafði jákvæð áhrif á niðurstöður rekstrar sem var 2 milljörðum yfir fjárhagsáætlun. Fjármagnsgjöld (nettó) námu 19,8 milljörðum króna og voru 1,9 milljarði lægri á fyrstu níu mánuðum þessa árs en á því síðasta. Rekstrarniðurstaða A- og B- hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 45,1 milljarði sem er um 3,4 milljarði betri niðurstaða en á sama tímabili í fyrra.
Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð um 2,1 milljarð króna á tímabilinu, sem er 3,3 milljörðum betri niðurstaða en í fyrra. Grunnreksturinn, það er rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) var jákvæð um 10,3 milljarða króna.
Rekstur tímabilsins einkennist af sveiflum, bæði í tekjum og gjöldum. Má nefna að skatttekjur voru 2,3 milljörðum króna yfir áætlun en á móti var gjaldfærsla lífeyrisskuldbindingar 3,4 milljörðum yfir áætlun. Launaútgjöld hækkuðu um 6,9 milljarða á milli ára og hafa nýir kjarasamningar þar áhrif. Samantekið var rekstur sviða og málaflokka A-hluta í jafnvægi á tímabilinu.
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2026 var samþykkt í borgarstjórn í vikunni. Óvissa í efnahagsumhverfi hefur aukist og gera nýlegar efnahagsspár ráð fyrir minni hagvexti, hærri verðbólgu og lakari horfum á vinnumarkaði. Þá eru útflutningshorfur dræmari en vísbendingar eru um að þessi atburðir hafi enn sem komið er takmörkuð áhrif á vinnumarkað og heimili í Reykjavík.
Neikvæð áhrif greiðslufalls Norðuráls
Orkuveita Reykjavíkur lagði fram breytta fjárhagsspá fyrir árið 2026 þann 24. nóvember vegna þess að Norðurál, stærsti einstaki viðskiptavinur Orkuveitunnar, hefur upplýst félagið um að greiðslufall verði af hálfu fyrirtækisins vegna endurtekinna bilana í álveri þess á Grundartanga. Vegna þessa voru tillögur um breytingar á fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir næsta ár lagðar fram í borgarráði 27. nóvember. Í fjárhagsáætlun 2026-2030 er gert ráð fyrir að öll markmið fjármálastefnu séu uppfyllt frá og með árinu 2025.
Skoða má árshlutauppgjörið á síðu Kauphallarinnar.