Fyrir allra augum hlýtur styrk úr minningarsjóði Gunnars Thoroddsen
Einar Þorsteinsson borgarstjóri afhenti Dagbjörtu Andrésdóttur óperusöngkonu styrk úr minningarsjóði Gunnars Thoroddsen fyrir verkefnið Fyrir allra augum við hátíðlega athöfn í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag.
Fyrir allra augum stóð að gerð heimildarmyndarinnar Acting Normal With CVI (e. cerebral visual impairment) sem segir frá vangreindum sjúkdómi, heilatengdri sjónskerðingu, sem Dagbjört glímir við. Heilatengd sjónskerðing er regnhlífarheiti yfir sjónskerðingar eða blindu sem orsakast af skemmdum á sjónbraut og/eða sjónúrvinnslustöðvum í heilanum.
Dagbjört er 33 ára baráttukona sem var greind með heilatengda sjónskerðingu þegar hún var 26 ára gömul. Hún hefur tekist á við sjúkdóminn af mikilli þrautseigju og lært að syngja þó hún geti ekki lesið nótur.
Að verkefninu Fyrir allra augum standa þær Dagbjört, Bjarney Lúðvíksdóttir og Elín Sigurðardóttir, en með gerð myndarinnar vilja þær vekja athygli á sjúkdómnum því hann er mun algengari en margir halda. Talið er að einn af hverjum þrjátíu hafi einkenni heilatengdrar sjónskerðingar sem getur komið fram hvenær sem er á ævinni.
Borgarstjóri sagði í ræðu sinni að það væri ótrúlegt hvernig Dagbjört náði að lifa án greiningar í öll þessi ár. „Heimildarmynd Dagbjartar, Bjarneyjar og Elínar veitir okkur innsýn í líf manneskju sem er með heilatengda sjónskerðingu, sú fyrsta í fullri lengd. Við fáum að kynnast því hvernig einföldustu athafnir útheimta þrautseigju og útsjónarsemi hjá Dagbjörtu svo hún geti tekist á við verkefni daglegs lífs. Sannarlega verðugt verkefni sem mun verða til góðs.“
Dagbjört tók við styrknum og þakkaði fyrir. „Þetta mun koma okkur vel því við ætlum að halda áfram með verkefnið. Við stefnum á að bjóða upp á fræðslusýningar hérlendis og erlendis til að kynna verkefnið og málefnið frekar,“ sagði Dagbjört.
Í lok athafnarinnar söng Dagbjört, sem er óperusöngkona að mennt, tvö lög við undirleik Arnhildar Valgarðsdóttur píanóleikara.
Minningarsjóður Gunnars Thoroddsen var stofnaður af hjónunum Bentu og Valgarði Briem á fæðingardegi Gunnars þann 29. desember 1985 og í gær var veitt úr sjóðnum í 39. sinn.
Tilgangur minningarsjóðsins er að veita styrki til einstaklinga, hópa, stofnana eða félaga á sviði mannúðarmála, heilbrigðismála eða menningarmála, en Gunnar lét sérstaklega til sín taka í þessum málaflokkum þegar hann gegndi embætti borgarstjóra.