Forgangsraðað í samræmi við félagslegar áherslu samstarfsflokka í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2026

Fjárhagsáætlun fyrir 2026 var samþykkt í borgarstjórn í kvöld.
Borgarstjórnarfundur um kvöld

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar var samþykkt í borgarstjórn í kvöld. Samkvæmt henni er stefnt að rúmlega 3,4 milljarða króna rekstrarafgangi A-hluta, eða þess hluta reksturs borgarinnar sem fjármagnaður er af skatttekjum. Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri mælti fyrir frumvarpi að fjárhagsáætlun í fyrsta sinn.  

Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2026 og fimm ára tímabilið til 2030 sem samþykkt var í borgarstjórn í kvöld er gert ráð fyrir að öll markmið fjármálastefnu séu uppfyllt. 

Staðið vörð um mikilvæga þjónustu

„Fyrsta fjárhagsáætlun samstarfsflokkanna í meirihluta borgarstjórnar sýnir ábyrgan rekstur þar sem staðið er vörð um mikilvæga þjónustu í samræmi við félagslegar áherslur samstarfsflokkanna.“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri.

„Við munum halda áfram uppbyggingu þjónustu í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna þeirra og við erum að gefa í og liðka fyrir húsnæðisuppbyggingu.  Á bak við upphæðir í fjárhagsáætlun eru íbúar sem treysta á fjölþætta þjónustu borgarinnar. Á árinu 2026 verður unnið ennfrekar að því að skapa svigrúm til að bæta í þjónustuna við okkar viðkvæmustu hópa. Leiðarljósið í þeirri vinnu eru áhugaverðar tillögur sem bárust í samráðsferli frá íbúum og starfsfólki borgarinnar. Þá eru einnig settar fram nýjar aðgerðir til að sporna við veikindum meðal starfsfólks.“  

Uppfærð áætlun sýnir traustan rekstur

Heildaráhrif breyttrar fjárhagsspár Orkuveitu Reykjavíkur og nýrrar þjóðhagsspár Hagstofu á rekstrarniðurstöðu A-hluta eru metin neikvæð um 1.332 milljónir króna sem hefur í för með sér að rekstrarniðurstaðan lækkar úr 4.763 milljónir króna í 3.431 milljónir króna.

Áætlun um arðgreiðslur í A-hluta var endurskoðuð á milli umræðna til samræmis við fjárhagsspá Orkuveitu Reykjavíkur. Áhrifin eru til lækkunar um 1.871 milljón króna. 

Breyttar forsendur fyrir fjárhagsáætlun eru í samræmi við nýja þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem birt var þann 14. nóvember sl. Í uppfærðri þjóðhagsspá er nú gert ráð fyrir minni hagvexti, hærri verðbólgu og lakari horfum á vinnumarkaði. Spáin tekur mið af dræmari útflutningshorfum í kjölfar ýmissa rekstraráfalla undanfarinna mánaða.  

Uppfærð spá gerir ráð fyrir 5,2% launaþróun á árinu 2026, sem er um 0,7 prósentustigum hærra en í þjóðhagsspá sem forsendur frumvarps að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar byggir á.