Dýrin mín stór og smá í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum
Fyrsti kiðlingur ársins í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum leit dagsins ljós í gærmorgun.
Huðnan Kolbrá
Það var huðnan Kolbrá sem var fyrst þegar hún bar myndarlegum hafri og nokkrum tímum síðar bar huðnan Síða myndarlegri huðnu. Faðir þeirra beggja er hafurinn Emil. Áhugasöm geta kíkt í heimsókn til þessara ofurmyndarlegu vorboða alla daga frá kl. 10 til 17.
Geitur eru meðal fyrstu húsdýra í heiminum en talið er að þær hafi fylgt manninum í 10.000 ár en það er helst mjólk þeirra ásamt ull og kjöti sem er nýtt. Þær eru meðal landnámsdýra á Íslandi, voru fluttar hingað til lands með landnámsfólkinu. Þær hafa verið kallaðar kýr fátæka fólksins enda léttar á fóðrun og plássnettar. Fjöldi þeirra á Íslandi hefur aldrei verið mjög mikill en árið 2021 voru 1.672 geitur sagðar hafa verið á Íslandi.
Flóki og Flækja
Nýbúarnir Flóki og Flækja eru kalkúnapar sem kom úr Mosfellsdalnum, en eigandi þeirra sá sér ekki lengur fært að sjá um þau. Fjölskyldu- og Húsdýragarðurinn ættleiddi parið og hafa þau dafnað vel og vakið athygli gesta. Hér áður fyrr voru kalkúnar meðal dýra garðsins og starfsfólk er virkilega spennt yfir að fá að hugsa um þessa skemmtilegu stóru fugla á ný.
Til eru nokkur afbrigði kalkúna og litafjölbreytnin nokkur. Hvítir kalkúnar eru algengastir hérlendis enda alikalkúnar flestir hvítir að lit og hafa nokkrir slíkir búið í garðinum sem og bronskalkúnar. Fólki kalkúnahaninn og Flækja kalkúnahænan eru svört að lit, haninn er með stóran áberandi sepa fyrir neðan gogginn og liturinn á hausnum getur verið allt frá því að vera ljósblár yfir í fagurrauður. Svartir kalkúnar eru einnig sagðir vera koparlitaðir í dagsbirtu og sól.
Kornhænur
Kornhænur eru nú í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Garðinum áskotnuðust egg frá bónda í Borgarfirði, sem starfsmenn sáu svo um að klekja út og komu fyrstu ungarnir úr eggjunum um síðustu jól.
Kornhænur eru af fasanaætt og eru litlir fuglar sem komast fyrir í lófa manns. Þær geta flogið en þó ekki mjög hátt upp en komast þó alveg nokkur hundruð metra í hverju flugi. Það er í eðli þeirra að fela sig og þær eru mjög góðar í því. Kornhænu ungar stækka fljótt, og sjö vikum eftir að eggin klekjast út verða þeir kynþroska. En ævin þeirra er líka tiltölulega stutt en það er talað um að meðalaldur kornhæna sé í kringum 3 til 4 ár.
Það er vel þess virði að leggja leið sína í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn til að skoða dýrin.
Ævintýrahöll Barnamenningarhátíðar í Fjölskyldu- húsdýragarðinum
Ævintýrahöll Barnamenningarhátíðar hefur í gegnum tíðina flakkað á milli hverfa borgarinnar og í ár fer hún fram í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Helgina 12. og 13. apríl næstkomandi verður skemmtidagskrá í boði í garðinum sem er opinn frá 10.00 til 17.00. Frítt inn og gott aðgengi fyrir öll.
Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá fyrir börn og aðstandendur frá klukkan 10:30 til 16:30 báða dagana. Í boði verður fjölskyldujóga, ratleikir, brekkusöngur, Dans Afríka Iceland og krakkakaróki svo eitthvað sé nefnt auk þess verður hægt að heimsækja dýrin.
Auðvelt er að ferðast með almenningssamgöngum í Fjölskyldugarðinn en þeir strætisvagnar sem stöðva næst garðinum eru númer 2, 5, 15 og 17. Stöðin kallast Laugardalshöll.
Það liggja reiðhjóla- og göngustígar að Laugardalnum úr öllum áttum og eru hjólagrindur við inngang Fjölskyldugarðsins.
Bílastæði við Fjölskyldugarðinn eru ókeypis.
Gott aðgengi er fyrir öll.
Öll velkomin!