Umfangsmikil innleiðing sem snertir mörg þúsund einstaklinga

Stjórnendur á velferðarsviði ásamt Finni Pálma Magnússyni, vörustjóra dala.care.
Kristjana Gunnarsdóttir, Anna Sigrún Baldursdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Rannveig Einarsdóttir og Finnur Pálmi Magnússon.

Reykjavíkurborg hefur samið við hugbúnaðarfyrirtækið dala.care sem er í eigu Gangverks, um innleiðingu á stafrænni lausn fyrir heimaþjónustu, búsetuþjónustu og ýmsa aðra stuðningsþjónustu sem veitt er á velferðarsviði. Um er að ræða smáforrit í síma þar sem umönnunaráætlun er aðgengileg í rauntíma og þar sem notendur geta fylgst með og skráð mikilvægar upplýsingar. Lausnin á að auka öryggi notenda, auðvelda stjórnendum skipulagningu og starfsfólki veitingu þjónustunnar. 

Þetta er umfangsmesta innleiðingarverkefni sem ráðist hefur verið í á velferðarsviði enda snertir það fjölda starfsfólks og notenda þjónustunnar, til dæmis eldra fólk, fatlað fólk, börn og fjölskyldur. Taka má dæmi af heimaþjónustu Reykjavíkur, sem er samþætt þjónusta heimahjúkrunar og heimastuðnings þar sem meirihluti notenda er eldra fólk. Í heild starfa 474 einstaklingar í heimaþjónustu á vegum Reykjavíkurborgar, 176 í heimahjúkrun og 298 í heimastuðningi. Fjöldi notenda heimaþjónustu er um 4000. Allt það starfsfólk og allir notendur þjónustunnar koma til með að nota smáforritið.  

Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, á von á að nýtt kerfi hafi í för með sér margvíslega kosti, hvort tveggja fyrir notendur þjónustunnar og starfsfólk. „Kerfið kemur til með að bæta öryggi í framkvæmd þjónustunnar og í meðferð viðkvæmra upplýsinga. Auk þess eykur það yfirsýn stjórnenda og starfsfólks yfir eigin verkefni og yfir þá þjónustu sem viðkomandi einstaklingur hefur fengið og á að fá. Þetta hjálpar okkur líka við gæðaeftirlit þjónustunni. Síðast en ekki síst geta notendurnir sjálfir og  aðstandendur fylgst með þjónustunni,“ segir Rannveig.   

Styður við sjálfstæði notenda þjónustunnar

Á undanförnum misserum hefur Reykjavíkurborg lagt ríka áherslu á innleiðingu velferðartækni í þjónustu sinni. Meðal annars hafa lyfjaróbótar verið teknir í notkun, skjáheimsóknir í heimaþjónustu hafa fest sig í sessi og nýlega hófust prófanir á verkefni um fjarvöktun hjartabilunareinkenna. Rannveig segir innleiðingu dala.care ríma vel við þá vegferð. „Við leysum ekki umönnunarþörf með tæknilausnum en við getum stutt fólk með slíkum lausnum. Þess vegna er velferðartækni mikilvæg viðbót við það sem fyrir er. Það allra mikilvægasta er að hún eykur sjálfstæði fólks,“ segir hún. 

Nútímavædd og persónumiðuð þjónusta

Einstaklingsmiðuð þjónusta þarf að mæta þörfum hvers og eins á persónulegan og mannlegan hátt. Dala.care auðveldar þá nálgun en lausnin er byggð á reynslu sem kom úr samstarfi Gangverks og TheKey í Bandaríkjunum.

Kerfið verður bæði aðgengilegt í síma og tölvu.

Markmiðið er að bæta þjónustu með því að minnka þann tíma sem fer í utanumhald og gagnainnslátt svo starfsfólk geti einbeitt sér að því að veita persónulega þjónustu. Dala.care býður einnig upp á sveigjanleika og sérsniðna nálgun þar sem kerfið getur mætt þörfum þeirra ólíku hópa sem velferðarsvið þjónar. Kerfið er hannað út frá þörfum þeirra sem þjónustunnar njóta og skipuleggur hana út frá þeim svo þjónustan verður markvissari. Með þessum hætti geta fjölbreyttir hópar sem koma að unnið saman og veitt betri þjónustu með minni fyrirhöfn.

Finnur Pálmi Magnússon, vörustjóri dala.care, fagnar samstarfinu við Reykjavíkurborg. „Það er mikil viðurkenning fyrir okkur hjá dala.care að fá að taka þátt í  stafrænni vegferð Reykjavíkur í velferðarþjónustu. Við erum ungt fyrirtæki en höfum á stuttum tíma náð góðum árangri byggt á okkar nálgun við að leysa áskoranir og erum mjög spennt að létta undir og efla þessa mikilvægu þjónustu,“ segir Finnur. 

Innleiðing hefst á næstu vikum

Kerfið er nú þegar í innleiðingu hjá Vestmanneyjabæ og verður nú aðlagað að þörfum Reykjavíkurborgar. Samningur er gerður við Gangverk í kjölfar viðamikillar úttektar og útboðsferlis. Fimm fyrirtæki tóku þátt í útboðinu og var Gangverk hlutskarpast þegar borin voru saman gæði og verð þar sem gæði vógu 70% og verð 30%. Innleiðing dala.care hefst á næstu vikum og er gert ráð fyrir að henni verði lokið á árinu.