Tvær brennur verða haldnar í Reykjavík á þrettándanum, laugardaginn 6. janúar 2024, annars vegar við Ægisíðu og hins vegar við frístundamiðstöðina Gufunesbæ í Grafarvogi.
Austurmiðstöð kveður jólin með þrettándabrennu við Gufunesbæ og hefst dagskráin kl. 17:00 með notalegri kakó- og vöfflustund í Hlöðunni. Skólahljómsveit Grafarvogs leikur nokkur lög kl. 17:15 og leiðir síðan göngu frá Hlöðunni að brennu kl. 17:40. Kveikt verður í brennunni kl. 17:45 og munu Spotlight, Espólín, Silfur og Dóra og Döðlurnar skemmta gestum. Þrettándagleðinni lýkur svo með flugeldasýningu kl.19:00.
Á þrettándahátíð Vesturbæjar verður dagskráin eftirfarandi. Safnast verður saman við Melaskóla kl. 18:00, þar sem Sveinn kennari við skólann leiðir fjöldasöng en því næst verður gengið með blys að brennunni á Ægisíðu í fylgd lögreglu. Kveikt verður í brennunni kl. 18:30 og flugeldum skotið upp kl. 18:45.
Foreldrafélög Vesturbæjar-, Granda-, Haga- og Melaskóla, ásamt Vesturmiðstöð standa að þrettándahátíðinni, ásamt nokkrum styrktar- og samstarfsaðilum.
Góða skemmtun!