Reykjavíkurborg samþykkir friðlýsingu Hólavallagarðs
Reykjavíkurborg samþykkir fyrir sitt leyti að Hólavallagarður verði friðlýstur á grundvelli menningarminjalaga en tillaga þess efnis kom frá Minjastofnun Íslands. Friðlýsingin nær til Hólavallagarðs í heild, heildarskipulags hans, veggjar umhverfis garðinn, klukknaports, minningarmarka og ásýndar hans. Tillagan var samþykkt í borgarráði fyrir helgi.
Nýtur hverfisverndar samkvæmt deiliskipulagi
Í umsögn Reykjavíkurborgar sem lögð var fyrir borgarráð er tekið er undir sjónarmið um mikilvægi garðsins sem menningarsögulegra minja enda nýtur hann hverfisverndar samkvæmt gildandi deiliskipulagi, sem er frá árinu 2003. Þar segir einnig að eðlilegt væri í friðlýsingartexta að vísa til deiliskipulagsins og jafnvel taka upp ýmis ákvæði úr deiliskipulagi eins og við á.
Bent er á að borgin hafi fjármagnað lagfæringar kirkjugarðsveggsins og tryggt að umhverfi garðsins sé til sóma.
Merkilegur minjastaður og kennileiti
„Hólavallagarður er með merkustu kirkjugörðum landsins og í honum endurspeglast hluti af sögu og þróun Reykjavíkur. Hann er vel varðveittur og telst eitt af helstu kennileitum borgarinnar. Garðurinn er fjölsóttur áfangastaður og hefur þar af leiðandi mikið gildi sem sögulegur staður innan borgarinnar. Það er mat undirritaðra að með friðlýsingu fengi Hólavallagarður skýrari stöðu sem merkilegur minjastaður sem leitt gæti til að umgjörðin um viðhald hans og umgengni verði enn betri,“ segir enn fremur í umsögninni.
Hefur ekki áhrif á umhirðu og daglegan rekstur
Það er síðan ráðherra sem ákveður friðlýsingu að fenginni tillögu Minjastofnunar Íslands. Tekið er fram að ekki sé gert ráð fyrir 100 metra friðhelguðu svæði utan framangreindra friðlýsingarmarka eins og heimilt er samkvæmt minjalögum.
Minjastofnun Íslands fór af stað í friðlýsingarferlið að frumkvæði Kirkjugarða Reykjavíkur. Friðlýsing hefur ekki áhrif á umhirðu og daglegan rekstur garðsins og áfram veður heimilt að jarðsetja duftker og halda við leiðum í samráði við Kirkjugarða Reykjavíkur.