Nýr og glæsilegur íbúðakjarni í Hlíðunum
Gleðin var við völd í dag, þegar Einar Þorsteinsson borgarstjóri og Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, afhentu íbúum nýs íbúðakjarna á Háteigsvegi formlega lykla að íbúðum sínum. Í íbúðakjarnanum munu sjö einstaklingar eiga heimili og fá þar aðstoð við að lifa sjálfstæðu lífi.
Íbúar og aðstandendur þeirra, starfsfólk kjarnans, fulltrúar Reykjavíkurborgar og Félagsbústaða, hönnuðir hússins og aðrir sem komu að hönnun og byggingu þess komu saman til að fagna formlegri opnun kjarnans. Flestir eiga íbúarnir tilvonandi það sameiginlegt að vera ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref í sjálfstæðri búsetu og skein gleðin úr hverju andliti í dag, þegar þeir skoðuðu og sýndu viðstöddum íbúðir sínar. Enn eru nokkur handtök eftir til þess að hægt sé að búa í húsinu en gert er ráð fyrir að íbúar geti flutt inn fljótlega upp úr áramótum.
Fjórir íbúðakjarnar í byggingu eða hönnunarferli
Áður en íbúar fengu lyklana að íbúðum sínum afhenti Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri Félagsbústaða, borgarstjóra íbúðakjarnann formlega. Félagsbústaðir eru alfarið í eigu Reykjavíkurborgar og hafa það hlutverk að tryggja framboð af félagslegu leiguhúsnæði í Reykjavík.
Markmiðið er að 5% íbúða í borginni sé félagslegt leiguhúsnæði. Nú eru 3145 félagslegar leiguíbúðir í Reykjavík og af þeim eru 475 íbúðir fyrir fatlað fólk. Þetta er nítjándi íbúðakjarninn sem Félagsbústaðir hafa ýmist byggt eða keypt í Reykjavík frá árinu 2018. Fjórir íbúðakjarnar eru nú í byggingu eða hönnunarferli.
Mun lægra kolefnisspor en í sambærilegum byggingum
Íbúðirnar á Háteigsvegi eru bjartar og fallegar og úr mörgum þeirra er óviðjafnanlegt útsýni yfir borgina. Staðsetningin, á milli Vatnshólsins svokallaða og Sjómannaskólans, er heldur ekki af verri endanum.
Íbúðakjarninn er merkilegur fyrir þær sakir að unnið var markvisst að því að lækka kolefnisspor samhliða hönnun hans. Arkitekt hússins er Arnhildur Pálmadóttir sem nýverið hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir þverfaglega nálgun og áherslu á minnkaða kolefnislosun og endurnýtingu byggingarefnis. Í ávarpi hennar við opnunina kom fram að lækkun kolefnisspors, miðað við núverandi viðmiðunarhús, sé 53%. Meðal annars fengu afgangar af steinflísum sem féllu til við byggingu Smiðju, skrifstofubyggingar Alþingis, nýtt hlutverk í íbúðakjarnanum, en þær prýða nú gólf í anddyri hans. Það var Grafa og grjót sem gaf það efni. Fleira byggingarefni var endurnýtt, svo sem afgangstimbur frá Húsasmiðjunni, afgangsgluggar frá Gluggagerðinni og afgangstimbur frá Byko en öll gáfu fyrirtækin efnið til verkefnisins.
Fleiri komu með einum eða öðrum hætti að hönnun og byggingu kjarnans. Nánar má lesa um framkvæmdina og samstarfaðila á vefsíðu sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur útbúið um það.
Vona að íbúar eigi gott líf á nýju heimili
Það var Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, sem stýrði athöfn dagsins en auk hennar, borgarstjóra og framkvæmdastjóra Félagsbústaða tóku þau Arnhildur Pálmadóttir og og Hermann Jónasson hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun til máls. Öll færðu þau íbúum hlýjar kveðjur með von um að þeim eigi eftir að líða vel og eiga gott líf á nýjum heimilum sínum.