Í sumar útnefnir Skógræktarfélag Reykjavíkur Hverfistré Reykjavíkur, í öllum tíu hverfum borgarinnar. Félagið óskar eftir tilnefningum frá íbúum og áhugafólki.
Valið verður úr tilnefningunum og fá eigendur trjánna viðurkenningarskjöl með stuttri umfjöllun um Hverfistré hvers hverfis, þann 25. ágúst 2024. Önnur glæsileg eða athyglisverð tré verða skráð sérstaklega og þannig stutt við skrásetningu merkilegra trjáa í borginni.
Hægt er að tilnefna einstaka tré eða runna en einnig trjáraðir eða trjágróður sem myndar góða heild.
Tré í borgum hafa skapað skjól, draga úr mengun, eru búsvæði fugla og skordýra og gera umhverfið fallegra og skemmtilegra. Rannsóknir hafa sýnt fram á bein og mælanleg tengsl milli trjágróðurs í borgum og betri heilsu.
Fallegur trjágróður getur skapað bæði skjól og einstaka stemmningu, á öllum árstímum.
Hægt er að tilnefna stök tré, runna, trjáraðir eða lundi. Ástæður fyrir tilnefningu geta verið margs konar. Til dæmis merkileg saga trésins eða að trjátegundin sé einkennandi fyrir hverfið. Þá getur verið að gróðurinn veiti gott skjól, að tré laði að mikið fuglalíf eða að trjálundur sé góður samkomustaður fyrir fólk í hverfinu. Sum tré eru frábær til að klifra í, önnur óvenjuleg og enn önnur bara sérlega falleg.
Hverfistré verða útnefnd fyrir öll hverfi borgarinnar, samkvæmt hverfaskiptingu Reykjavíkurborgar:
- Hverfistré Árbæjar
- Hverfistré Breiðholts
- Hverfistré Grafarholts-Úlfarsárdals
- Hverfistré Grafarvogs
- Hverfistré Háaleitis-Bústaða
- Hverfistré Hlíða
- Hverfistré Kjalarness
- Hverfistré Laugardals
- Hverfistré Miðborgar
- Hverfistré Vesturbæjar
Í Vesturbænum er víða mikill og fjölbreyttur trjágróður, svo sem við Ljósvallagötu.
Þótt trjárækt í Reykjavík eigi sér tiltölulega stutta sögu eru mörg merkileg tré, fallegar trjáraðir og lundir í borginni. Finna má aldargömul tré með fróðlega sögu. Í sumum hverfum og einstökum götum eru ákveðnar tegundir áberandi — oft reynitré, birki eða aspir. Það getur verið vegna þess hvað var í boði á þeim tíma eða eiginleika trjánna og samspils þeirra við umhverfið. Þá má víða finna óvenjuleg tré, svo sem álm, ask, hrossakastaníu, fjallaþin og eik.
Skógræktarfélag Reykjavíkur hvetur fólk til að senda inn tilnefningar á netfangið heidmork@heidmork.is. Rökstuðningur og mynd mega gjarna fylgja, þó það sé ekki skilyrði. Tekið er við tilnefningum til loka júlí.
Garðahlynurinn á horni Suðurgötu og Vonarstrætis er með þekktari trjám borgarinnar.