Björgunarsveitin Þorbjörn frá Grindavík fær styrk úr minningarsjóði Gunnars Thoroddsen
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti björgunarsveitinni Þorbirni styrk úr minningarsjóði Gunnars Thoroddsen við hátíðlega athöfn í Ráðhúsi Reykjavíkur á mánudaginn.
Borgarstjóri sagði björgunarsveitina vel að styrknum komna, en liðsmenn björgunarsveitarinnar hafa unnið óeigingjarnt og ötult starf við að tryggja öryggi íbúa og almennings undanfarin ár vegna viðvarandi jarðskjálfta og eldsumbrota á Reykjanesskaga.
Dagur sagði í ræðu sinni í gær að hann hefði heimsótt Grindavík í nóvember síðastliðnum og því myndi hann seint gleyma. „Efst í huga mér er ómæld virðing fyrir því ómetanlega sjálfboðaliða- og björgunarstarfi sem Björgunarsveitin Þorbjörn hefur lagt af mörkum við krefjandi aðstæður síðustu árin og verið þar í lykilhlutverki ásamt björgunarsveitarfólki hvaðanæva af landinu“ sagði borgarstjóri.
Björgunarsveitin Þorbjörn á sér merka sögu en hún er á 93. aldursári. Saga hennar er samofin sjóbjörgunarsögu Grindavíkur en hún er sú sveit sem hefur bjargað flestum mannslífum úr sjávarháska eða 230 manns, þar af 205 með fluglínutækjum. Hún er sannarlega í fremstu röð á sjó og landi.
Guðbjörg Eyjólfsdóttir, gjaldkeri sveitarinnar tók við viðurkenningarskjali úr höndum borgarstjóra og sagði hún styrkinn, sem hljóðar upp á 750 þúsund krónur, koma að góðum notum í starfinu fram undan þar sem enn eru lýkur taldar á eldgosi.
Minningarsjóður Gunnars Thoroddsen var stofnaður af hjónunum Bentu og Valgarði Briem á fæðingardegi Gunnars þann 29. desember 1985 og í gær var veitt úr sjóðnum í 38. sinn.
Tilgangur minningarsjóðsins er að veita styrki til einstaklinga, hópa, stofnana eða félaga á sviði mannúðarmála, heilbrigðismála eða menningarmála, en Gunnar lét sérstaklega til sín taka í þessum málaflokkum þegar hann gegndi embætti borgarstjóra.