Vöntun er á fyrirmyndum og áhrifavöldum í umhverfis og loftslagsmálum. Þetta segja tveir þekktir sérfræðingar í loftslagsmálum, þeir Mike Berners-Lee og George Marshall sem héldu fyrirlestra og vinnusmiðjur fyrir stjórnendur og fulltrúa frá leikskólum, grunnskólum, félagsmiðstöðvum, frístundaheimilum og framhaldsskólum í Reykjavík. Þeir voru með erindi í Tjarnarsal Ráðhússins í vikunni og tóku alls um 90 þátt.
Sérfræðingarnir segja sárlega vanta forystu í umhverfismálum. Hvergi í heiminum sé í rauninni stjórnvald sem sé leiðandi í umhverfismálum og hægt sé að lyfta upp og benda öðrum á að horfa til. Ísland sé í kjörstöðu að taka þetta hlutverk.
Matráðar í kjörinni stöðu til að verða áhrifavaldar
Samstaðan sem íslenska samfélagið sýni oft á erfiðum tímum skapi frábærar forsendur til að standa saman og taka umhverfismálin föstum tökum. Þá samstöðu mætti efla því allir geta gert eitthvað án þess að umturna lífi sínu. Án þess að vera vegan eða grænkeri er til dæmis hægt að fækka kjötmáltíðum og minnka notkun dýraafurða í matargerð. Í viðleitni til að ýta undir þetta eru stórir vinnustaðir í kjörstöðu með því að bjóða upp á girnilegt og gott grænmetisfæði og hafa það jafnvel í forgrunni í staðinn fyrir það sem hefðbundið er. Þannig geta matráðar verið áhrifavaldar og ýmsir aðrir geta tekið slíkt hlutverk með því að færa loftlagsbreytingar og vandann og lausnirnar sem þeim fylgir nær okkur. Þeir Berners-Lee og Marshall segja ljóst að margir eigi erfitt með að tengja að heimkynni ísbjarna séu að hverfa og að fólk hafi jafnvel tilhneigingu til að taka ekki til sín umhverfisvanda sem standi þeim enn nær.
Hér eru upplýsingar um fyrirlesarana fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér málin enn frekar:
George Marshall hefur m.a. skrifað bækurnar:
Carbon Detox (Hamlyn Gaia, 2007)
Don’t Even Think About It: Why Our Brains Are Wired to Ignore Climate Change (Bloomsbury, 2014).
Mike Berners-Lee er höfundar bókanna:
How Bad are Bananas? The Caron Footprint of Everything (London: Profile Books, 2010, 2. útg. 2020),
The Burning Question: We Can't Burn Half the World's Oil, Coal and Gas. So How Do We Quit? (ásamt Duncan Clark, 2013)
There Is No Planet B: A Handbook for the Make or Break Years. Cambridge UP (2019).