Umferðaröryggi bætt við Eiðsgranda og Ánanaust

Samgöngur

Umferðaröryggi verður bætt á þessu svæði Arctic Images/Ragnar Th.
Yfirlitsmynd yfir hringtorgið hjá Ánanaustum, sést í götuna, hús og sjóinn.

Umferðaröryggi verður bætt við Ánanaust og Eiðsgranda en meðal annars verða sett upp ný gönguljós og gerðar endurbætur á gönguþverun. Með þessu er einnig verið að bæta aðgengi gangandi og hjólandi vegfarenda en við sjóinn er vinsæl göngu- og hjólaleið.

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti í morgun að veita heimild fyrir áframhaldandi undirbúningi, verkhönnun og gerð útboðsgagna, í samvinnu við Vegagerðina, sem er veghaldari á þessum götum. Íbúar hafa kallað eftir bættu aðgengi að stígum við ströndina auk þess sem umferðarslys sem orðið hafa á undanförnum misserum gefa tilefni til breytinga.

Hvað verður gert?

  • Ný gönguljós á Eiðsgranda, vestan við innkeyrslu að Hringbraut 121.
  • Akreinum vestur Eiðsgranda verður fækkað þannig að núverandi vinstribeygjuvasi verður fjarlægður og í staðinn verður núverandi vinstri akrein gerð að beygjuakrein.
  • Tillagan gerir einnig ráð fyrir að ekki verði hægt að taka vinstri beygju frá Hringbraut 121 inn á Eiðsgranda.
  • Settar verða upp miðeyjur á milli akreina í og úr hringtorginu. Þeim er ætlað að veita gangandi vegfarendum á leið yfir götuna skjól en tvær akreinar eru í hvora átt á Ánanaustum svo erfitt getur verið að átta sig á eða hafa yfirsýn yfir aðvífandi umferð.

Eins og áður segir er Vegagerðin veghaldari þarna en Ánanaust og Eiðsgrandi eru þjóðvegir í þéttbýli. Aðkoma Reykjavíkurborgar að væntanlegri framkvæmd felst í aðlögun og gerð stíga við gönguþveranirnar.