Úkraínsk börn hafa upplifað góðar móttökur samnemenda

Skóli og frístund

Úkraínskir foreldrar hittu borgarstjóra.

Borgarstjóri átti fund með fulltrúum foreldra úkraínskra barna til að fræðast um upplifun þeirra af móttöku Reykjavíkurborgar, bæði um það sem vel hefur verið gert og það sem betur mætti fara.

Sjö foreldrar mættu en auk þeirra voru á fundinum Oksana Shabatura, úkraínskur brúarsmiður sem starfar á skóla- og frístundasviði, Helgi Grímsson sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs og Rannveig Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs.

Mikilvægt að fá viðbótarhjálp til að læra íslensku

Foreldrunum var mikið í mun að koma á framfæri þakklæti fyrir góðar móttökur og skólaþjónustu frá því þau komu til landsins. Þau voru mjög ánægð með móttökubekk sem hefur verið starfræktur í Vesturbæjarskóla fyrir börn sem enn búa í móttökuhúsnæði og ekki komin í heimaskóla. Þá lýstu þau ánægju með íslenskuver sem starfrækt eru í borgarhlutunum og sögðu mikilvægt að börnin fengju viðbótarhjálp með íslenskuna í upphafi skólagöngunnar. Þó væri gott ef hægt væri að auðvelda yngri börnunum að fara á milli skóla til að sækja þjónustuna en íslenskuverin eru starfrækt í Breiðholtsskóla, Vogaskóla, Austurbæjarskóla og Ingunnarskóla.

Foreldrarnir segja börnin sín hafa upplifað góðar móttöku samnemanda sinna þvert á það sem þau höfðu fyrirfram haft áhyggjur af. Eins fannst þeim gott þegar þau komu í sína heimaskóla að þar voru fyrir nemendur með erlendan bakgrunn. Þannig sáu þau og upplifðu að þau væru ekki þau einu sem stæðu frammi fyrir áskorunum sem fylgja nýju landi og nýju tungumáli.