Tíu starfsstaðir bætast í hóp Réttindaskóla og Réttindafrístunda

Skóli og frístund

Réttindaskóli og Réttindafrístund

Nú þegar hafa 15 grunnskólar og 21 frístundaheimili og félagsmiðstöðvar lokið innleiðingu eða eru á seinni ári innleiðingar í verkefninu Réttindaskóli og Réttindafrístund. Skóla- og frístundasvið hefur síðastliðin ár verið í samstarfi við Unicef varðandi verkefnið Réttindaskóli og Réttindafrístund sem er vinnulíkan fyrir skóla- og frístundastarf sem tekur mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og miðar að því að auka virðingu, vernd og innleiðingu mannréttinda.

Verkefnið byggir á þátttöku, jafnrétti og virðingu

Skólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar sem vinna eftir líkaninu leggja sáttmálann til grundvallar í starfi sínu, skipulagningu, stefnumótun og starfsháttum. Áhersla er lögð á að skapa umhverfi sem byggist á þátttöku, jafnrétti og virðingu. Markmið Réttindaskólans og Réttindafrístundar er að byggja upp lýðræðislegt umhverfi með því að rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpa börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í nútíma samfélagi.

Ný handbók mun nýtast nýjum þátttakendum

Nýverið undirrituðu stjórnendur eftirfarandi skóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðvar samning um að innleiða verkefnið í sína starfsemi frá og með hausti 2023. Það eru Húsaskóli, Hamraskóli, Rimaskóli, Foldaskóli, félagsmiðstöðin Sigyn, félagsmiðstöðin Fjörgyn, frístundaheimilið Simbað, frístundaheimilið Regnbogaland, frístundaheimilið Kastali og frístundaheimilið Tígrisbær. Við undirritun samningsins var kynnt ný handbók fyrir frístundaleiðbeinendur í Réttindaskóla/frístundaverkefninu. Lilja Marta Jökulsdóttir forstöðumaður frístundaheimilisins Dalheimar á veg og vanda af handbókinni sem mun nýtast mjög vel í innleiðingu verkefnisins í starfi með yngstu börnunum.