Sumarblómatilraun með afskorin blóm í Grasagarðinum

Garðyrkja

Blómabeð og hús.

Nú stendur yfir sumarblómatilraun í Grasagarði Reykjavíkur en verkefnið kallast „Sumarblóm til afskurðar“. Með því að rækta afskorin blóm hér er hægt að minnka  kolefnisspor þeirra til muna og sleppa eitrinu. Verkefnið er í samstarfi við NordGen (Norræna genabankann), sem vinnur að því að tryggja erfðafræðilegan fjölbreytileika í ræktun á Norðurlöndum.

Tegundirnar sem voru settar niður í Grasagarðinum vegna verkefnisins eru gömul yrki af sumarstjörnu (Callistephus chinensis), ljónsmunna (Antirrhinum majus) og flauelsblómum (Tagetes patula).

Blóm í vasa.

Stórt kolefnisfótspor innfluttra blóma

Mörg afskorin blóm sem keypt eru í búðum koma innflutt frá Afríku, Mið-Ameríku og Hollandi. Kolefnisfótspor þessara blóma getur verið stórt. Hita þarf upp gróðurhús og blómin eru flutt langar leiðir í kæliskápum. Einnig er notast við töluvert af tilbúnum áburði og plöntuvarnarefnum.

Þessi tilraun, sem einnig er gerð í Svíþjóð, Noregi og Danmörku, er gerð meðal annars til þess að kanna hvernig þessar tegundir spjara sig við norrænar aðstæður og hversu lengi þær haldast fallegar sem afskorin blóm. Tegundirnar voru mikið notaðar á Norðurlöndunum til blómaskreytinga áður fyrr en framleiðsla þeirra hefur minnkað með árunum.

Tilraunareiturinn er staðsettur við austurenda safndeildar fjölæringa, sunnanmegin við skrifstofu Grasagarðsins.