Dagana 19. til 23. apríl fóru kennarar í leikskólunum Seljakoti og Seljaborg í náms- og kynnisferð til Stokkhólms. Tilgangur ferðarinnar var að kynna sér leikskóla sem starfa eftir hugmyndafræði Reggio Emilia líkt og Seljakot gerir.
Heimsóttir voru tveir leikskólar þar sem megináherslan er á að börnin fái notið hæfileika sinna á sem flestum sviðum skynjunar og sköpunar. Þau eru hvött til að prófa sig áfram, ígrunda og draga ályktanir og í öllu starfinu skiptir ferlið sjálft mestu máli, ekki útkoman. Mikið er unnið með náttúrulegan efnivið, áhersla er á jákvætt viðhorf til umhverfis og náttúru og börnin fá að spreyta sig á stöðvum bæði innanhúss- og utan. Ferðalöngum þótti mjög áhugavert að skoða og fræðast og í öðrum skólanum var að auki boðið upp á greinargóðan fyrirlestur um starfsemina í máli og myndum.
Endurnýtt og endurskapað
Í ferðinni var líka farið í efnisveitu (remidu) sem starfrækt er í sveitarfélaginu Haninge, skammt sunnan við Stokkhólm þar sem eru 45 leikskólar. Allir starfa þeir eftir hugmyndafræði Reggio Emilia. Í efnisveituna er safnað ýmiss konar efnivið frá fyrirtækjum og stofnunum sem síðan er nýttur í leikskólunum. Kennarar sækja þangað efnivið, en einnig fræðslu þar sem efnisveitan er líka hugsuð sem menningarsetur þar sem hægt er að kynna sér hugmyndafræðina á bak við það að endurnýta og endurskapa. Börnin fá aðgang að margbreytilegum efnivið og velta fyrir sér spurningum á borð við „hvað er þetta?“, „hvað gæti það verið?“, „hvað gæti þetta hafa verið?“ og „með hverju gæti það verið eitthvað annað en það er núna?“ Kennarar í Seljakoti og Seljaborg fengu síðan að kynnast því af eigin raun að prófa margs konar efnivið og unnu meðal annars í stuttmyndagerð, tónlistarflutningi, leirgerð, með mynstur og form í náttúrunni og margt fleira.
Ferðin var mjög lærdómsrík og hvetjandi enda ómetanlegt að kynna sér leikskólastarf annars staðar í veröldinni, læra eitthvað nýtt og geta borið saman við eigið starf. Svo lengi lærir sem lifir.