Það hefur verið líf og fjör hjá krökkunum í frístundaheimilinu Guluhlíð í skátaviku sem nú stendur yfir. Frístundaheimilið er fyrir börn með sérþarfir og stunda nám í Klettaskóla.
Skátaverkefni við hæfi
Skátavikan er fyrsti liðurinn í nýju samstarfi milli Skátanna og Guluhlíðar um skátastarf í frístundaheimilinu. Markmiðið er að börn með ólíkar stuðningsþarfir fái tækifæri til að upplifa skátastarf á eigin forsendum, verja tíma í náttúrunni og takast á við ævintýraleg skátaverkefni við þeirra hæfi.
Skátaklútar, tjöld og kleinur
Fyrsta daginn var útilega á dagskrá. Börnin settu upp skátaklúta, tjölduðu saman og prufuðu að verja tíma inn í tjöldunum. Þá var boðið upp á kakó og kleinur fyrir nýju skátana í lok fundarins. Börnin hafa og munu brasa ýmislegt annað skemmtilegt í vikunni eins og skynjunar og náttúrubingó, útieldun þar sem þau poppa, baka skátabrauð og grilla pylsur yfir opnum eldi.
Vilja auka aðgengi fyrir börn í viðkvæmri stöðu
Eins og fram kemur á vefsíðu Skátana er þetta nýja samstarf Skátanna og Guluhlíðar fyrsta skrefið í verkefninu Skátastarf fyrir alla. Það snýr að því að auka aðgengi að skátastarfi fyrir börn í viðkvæmri stöðu, með áherslu á börn af erlendum uppruna og börn með fatlanir.
Frístundaheimilið Gulahlíð er býður upp heils dags þjónustu fyrir börnin yfir sumarmánuðina en á veturna er þar frístundastarf eftir að hefðbundnum skóladegi líkur.