Reykjavíkurborg dæmdar bætur frá íslenska ríkinu
Íslenska ríkinu var óheimilt árin 2015-2019 að afnema með ákvæði reglugerðar almennt jöfnunarframlag vegna reksturs grunnskóla og framlag vegna nemenda með íslensku sem annað tungumál til Reykjavíkurborgar. Dómur þess efnis féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær og var íslenska ríkið dæmt til að greiða Reykjavíkurborg tæpa þrjá komma fjóra milljarða króna, ásamt vöxtum.
Undir lok árs 2019 gerði Reykjavíkurborg kröfu á hendur íslenska ríkinu um greiðslu tiltekinna framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga fyrir árin 2015-2019. Þar sem hvorki náðist samkomulag né viðurkenning á greiðsluskyldu ríkisins höfðaði Reykjavíkurborg í lok árs 2020 mál á hendur íslenska ríkinu annars vegar vegna almenns jöfnunarframlags vegna reksturs grunnskóla og hins vegar framlag vegna kennslu nemenda með íslensku sem annað tungumál.
Til þrautavara krafðist Reykjavíkurborg þess að viðurkennt yrði með dómi að íslenska ríkinu hefði verið óheimilt að afnema tilvitnuð framlög til Reykjavíkurborgar á grundvelli ákvæða reglugerðar, en á þessum tíma var Reykjavík eitt sveitarfélaga útilokað frá því að geta hlotið tilvitnuð framlög með þessum hætti. Höfuðstóll dómkröfu Reykjavíkurborgar vegna umræddra framlaga nemur tæplega fimm og hálfum milljarði króna, ásamt vöxtum.
Í dómi Héraðsdóms er fallist á að Reykjavíkurborg hafi með ólögmætum hætti verið útilokuð frá því að geta hlotið umrædd framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á fyrrnefndum árum á grundvelli ákvæða reglugerðar. Því var íslenska ríkið dæmt til að greiða Reykjavíkurborg tæpan þrjá og hálfan milljarð króna, ásamt vöxtum.
Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiðir árlega til allra annarra sveitarfélaga en Reykjavíkur með hverjum grunnskólanemanda sem á þarf að halda íslenskukennslu sem annað tungumál, þ.m.t. nemendur af erlendum uppruna. Hvergi eru eins margir grunnskólanemendur af erlendum uppruna og í Reykjavík. Hópnum tilheyra meðal annars börn á flótta, sem hefur fjölgað hratt í borginni undanfarin ár.