Börnin í leikskólanum Hraunborg í Breiðholti hafa haft í nógu að snúast nú á vormánuðum. Þau hafa gróðursett paprikufræ og lestrarátak hefur skilað heljarinnar beinfjöllum hjá Lubba lestrarhundi sem stolt börn hafa hlaðið upp.
Spennandi að sjá plöntuna kíkja upp úr moldinni
Í Hraunborg er það orðin hefð að börnin gróðursetji paprikufræ á vorin. Þau fengu fræ úr eldhúsinu úr ferskri papriku sem matráðurinn hafði skorið niður í salat. Það fylgir því jafnan gleði meðal barnanna að fylgjast með fræjunum springa út og sjá paprikuplöntuna kíkja upp úr moldinni. Öll börnin á eldri deildunum eiga sína plöntu í blómapotti sem þau skreyttu sjálf. Þau skiptast á að vera vökvunarstjórar á meðan plönturnar eru í leikskólanum en rétt fyrir sumarfrí fara börnin heim með plönturnar og halda áfram að hugsa um þær með aðstoð foreldra sinna.
Stolt börn skiluðu inn lestrarbeinum
Tvisvar á ári er lestrarátak í Hraunborg. Þá eru foreldrar beðnir um að lesa fyrir börnin sín heima, skrifa niður á Lubba bein hvaða bók var lesin ásamt nafni barns og blaðsíðufjölda. Hvatt er til að leyfa börnunum að gera sem mest sjálf, t.d að klippa út beinin og skrifa á þau. Þátttakan var góð og gaman var að sjá svipinn á börnunum þegar þau mættu með beinin því stoltið skein úr andlitunum. Eins og sjá má á myndunum var beinafjall Lubba orðið ansi rausnarlegt undir lok átaksins.