Árleg fræðsluvika með áherslu á upplýsinga- og miðlalæsi stendur yfir. Mikilvægt er að tileinka sér og eiga samtal með börnum og unglingum um hæfni til að finna, skilja, greina, meta og skapa upplýsingar á öruggan og skilvirkan hátt.
Mikilvægt að þekkja misupplýsingar
Á síðunni midlalaesi.is er að finna ýmislegt gagnlegt til þess að hjálpa okkur að rata og skilja Netið betur og hvernig við getum forðast og þekkt rangupplýsingar, misupplýsingar og meinupplýsingar og hvað það þýðir. Þar er einnig að finna þýðingar og skýringar á orðum og hugtökum eins ecco chambers, deepfakes, alternative media og dark ads.
Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar á fulltrúa í tengslanetinu sem stendur að vikunni og hefur gert fræðslumyndbönd um efnið. Þar er til dæmis að finna myndbönd um leiðir til að tala við börn og unglinga um notkun samfélagsmiðla og um aldurstakmörk á samfélagsmiðlum. Eins er fjallað um klámáhorf, falsfréttir, hatur og einelti, og líðan.