Leiðtogafundur Evrópuráðsins í Reykjavík hefst í dag
Leiðtogafundur Evrópuráðsins er haldinn í Reykjavík dagana 16. til 17. maí 2023.
Áhrif á daglegt líf
Af öryggisástæðum verða götur í kringum Hörpu lokaðar fyrir umferð ökutækja á meðan á fundinum stendur en hægt verður að fara um svæðið gangandi og á hjóli. Þetta á hins vegar ekki við um svæðið næst Hörpu, sem verður lokað almenningi.
Einnig má gera ráð fyrir umferðartöfum um allt höfuðborgarsvæðið vegna aksturs sendinefnda í lögreglufylgd til og frá Keflavíkurflugvelli og Reykjavíkurflugvelli á þessum dögum. Áhrifin verða hvað mest síðdegis á þriðjudeginum 16. maí í áttina að Reykjavík og miðvikudeginum 17. maí að Keflavík.
Markmið allra sem koma að skipulagningu fundarins og öryggisráðstöfunum honum tengdum er að lágmarka eins mikið og kostur er áhrif á daglegt líf borgarbúa. Við erum þakklát fyrir gott samstarf og samstöðu borgarbúa.
Þjónusta við hreyfihamlað fólk innan lokaða svæðisins
Sérútbúinn bíll frá akstursþjónustu fatlaðs fólks, Pant, verður staðsettur við Ráðhús Reykjavíkur. Hægt verður að bóka ferðaþjónustu til eða frá Ráðhúsinu í síma 540 2727 frá klukkan 9:00 til klukkan 22:00 þriðjudaginn 16. maí og frá klukkan 9:00 til 16:00 miðvikudaginn 17. maí. Aksturstími er frá klukkan 7:30 til 24:00 en beðið er um tveggja tíma fyrirvara á pöntun, og að pantanir berist að kvöldi ef óskað er eftir akstri snemma morguns.
Frá Ráðhúsi Reykjavíkur mun fólk nýta sér aðra ferðamáta eftir aðstæðum.
Hvaða ráðstafanir þarf starfsfólk í miðborginni að gera þessa daga?
Bílastæðahúsin við Hörpu, undir Hafnartorgi og Kalkofnsvegi verða lokuð frá kl. 23.00 á mánudagskvöldinu 15. maí til kl. 18.00 á miðvikudeginum 17. maí. Auk þess sem bílastæðahúsin í Traðarkoti, í Ráðhúsinu og Vesturgötu verða aðeins opin fyrir áskriftarhafa.
Starfsfólk þarf að gera ráð fyrir lengri tíma til að komast til og frá vinnu. Þrátt fyrir að götulokunin verði aðeins í Kvosinni verður umferð á öllu höfuðborgarsvæðinu þung þessa daga þar sem takmarkanir á umferð um Sæbraut, og víðar, munu hafa keðjuverkandi áhrif um allt höfuðborgarsvæðið.
Ekki verður hægt að aka um á rafskútu eða leggja rafskútum innan lokaða svæðisins.
Breyttar akstursleiðir Strætó
Engar almenningssamgöngur verða innan lokunarsvæðisins. Strætó ekur eftir breyttum akstursleiðum á meðan á lokuninni stendur, það er frá kl. 21.00 mánudaginn 15. maí til kl. 19.00 miðvikudaginn 17. maí. Vegna þessa munu leiðir 1, 3, 6 11, 12, 13, 14 og 55 aka hjáleiðir í kringum miðborgina og leið 16 ekur hjáleið um Vatnagarða í stað Sundagarða. Athugið að ófyrirséðar raskanir verða á tímaáætlunum víðs vegar um borgina á þessu tímabili. Frekari upplýsingar er hægt að nálgast á www.straeto.is.
Á vef utanríkisráðuneytisins er að finna svör við helstu spurningum um götulokanir: https://www.stjornarradid.is/.../spurt-og-svarad-um.../