Gróðurlistaverk í Grafarvogi
Hringtorg í Grafarvogi hafa vakið verðskuldaða athygli. Þau minna helst á litla lystigarða og er þeim einstaklega vel haldið við.
Dagbjört Kristín Ágústsdóttir og Guðfinna Albertsdóttir, flokkstjórar hjá garðyrkju Reykjavíkurborgar, eiga heiðurinn af umhirðu hringtorganna á myndunum ásamt ungmennum í sumarstörfum en hönnunin var að miklu leyti í höndum Gunnars Olgeirssonar, yfirverkstjóra hjá garðyrkjunni og Benedikts heitins Jónssonar garðyrkjufræðings.
Metnaðarfullt sumarstarfsfólk
Hönnunin fær að halda sér á milli ára enda um sannkölluð listaverk að ræða en mikið er lagt upp úr hreinsun og viðhaldi. „Það er um að gera að láta það sem vel er gert halda sér,“ segir Dagbjört. „Við sláum og kantskerum oft; Benedikt hafði mikinn metnað sem smitast áfram og við leggjum mikið upp úr að halda þessu góðu og arfahreinu. Krakkarnir í sumarvinnunni leggja sig virkilega fram og þótt við förum í sumarfrí halda þeir þessu hreinu og fínu. Þetta væri ekkert ef ekki væri þessi góða samvinna. Þau taka líka oft þátt í hönnuninni þegar verið er að setja blómin niður.“
Ánægja íbúa skilar sér
Blómin eru frekar sein til í ár vegna slæmrar tíðar en torgin eru engu að síður glæsileg og íbúar láta ánægju sína vel í ljós. „Það sem ég tek helst með mér þegar ég hætti störfum í febrúar næstkomandi,“ segir Dagbjört, „er hvað íbúar eru ánægðir. Þeir eru alltaf að stoppa og hrósa okkur og það gefur svo mikið. Okkur þykir mjög vænt um það.“
Fleiri myndir af hringtorgunum fögru í Grafarvogi má sjá á Facebooksíðu Reykjavíkurborgar.