Gagnaver, vatnsátöppun og þyrluþjónusta á Hólmsheiði

Atvinnumál Borgarhönnun

Hólmsheiði. Hugmyndir arkitekta að atvinnusvæði. Arkís fyrir Reykjavíkurborg.

Gagnaver, vantsátöppunarverksmiðja, þyrlustarfsemi og ferðaþjónusta eru hluti af starfsemi sem gæti byggst upp á nýju athafnasvæði Hólmsheiði við Suðurlandsveg. Mörg fyrirtæki lýstu áhuga  á að vera með starfsemi á svæðinu í framhaldi af auglýsingu Reykjavíkurborgar og nú hefur borgarráð falið skrifstofu borgarritara og borgarstjóra að hefja viðræður um möguleg lóðarvilyrði.  

Fyrirtækin eru Verne Global, North Ventures, ATP Holding (Alvogen), Parlogis, Ölgerðin, Safari,  Velferðarráðuneytið og fyrirtæki í þyrluþjónustu. Einnig var samþykkt að bjóða Brimborg, Heklu og Eykt til viðræðna um höfuðstöðvar, en ekki stór geymslusvæði undir ökutæki.  Óskum smærri fyrirtækja er vísað í farveg við gerð deiliskipulags á Hólmsheiði, en þeirri vinnu á að ljúka á næsta ári. Stefnt er að því að fyrstu lóðir verði byggingarhæfar árið 2024.  

Fyrirtækin og fyrirhuguð starfsemi 

Fyrirtækin sem sjá tækifæri á Hólmsheiði og boðið er til viðræðna eru þessi: 

Verne Global er stærsta gagnaversfyrirtækið á Íslandi. Það var stofnað árið 2012 og hefur umtalsverða þekkingu á þróun og rekstri gagnavera við íslenskar aðstæður. Eigandi Verne er breski fjárfestingarsjóðurinn Digital 9 sem leggur áherslu á fjárfestingar sem draga úr kolefnisútblæstri. Áætluð fjárfesting fyrirtækisins á Hólmsheiði er um 400 milljón USD. Borgin mun gera kröfu um að fyrir liggi samningur um orku og skuldbinding um að rafeyrir verði ekki framleiddur á lóðinni. 



North Ventures er alþjóðlegur hópur reynslumikilla aðila á sviði þróunar og uppbyggingar á gagnaverum sem óska eftir vilyrði um lóð undir gagnaver sem þau myndu í kjölfarið kynna til stórra erlendra aðila. Reykjavíkurborg mun gera kröfu um að fyrir liggi samningur um orku og skuldbinding um að rafeyrir verði ekki framleiddur á lóðinni.  

ATP Holding þjónustar Alvotech sem eru á meðal stærstu fyrirtækja á Íslandi. Alvotech er sérhæfir sig í þróun líftæknilyfja. Á Hólmsheiði hyggst ATP þróa vöruhús fyrir Alvotech fyrir hráefni til lyfjaframleiðslu, húsnæði fyrir pökkun lyfja í „notenda umbúðir“ og kæligeymslur fyrir lyf. Auk þess eru til skoðunar möguleikar á húsnæði til geymslu á rannsóknar- og framleiðslutækjum á svæðinu. 

Parlogis er vörustjórnunarfyrirtæki og felst starfsemi félagsins í vörustjórnun og dreifingu á hvers konar vörum og varningi. Vöruhús Parlogis eru sérhæfð fyrir lyf, lækningatæki og heilbrigðisvörur og þaðan annast Parlogis dreifingu varanna til viðskiptavina um land allt. 

Ölgerðin Egill Skallagrímsson framleiðir, flytur inn, dreifir og selur drykkjavörur og matvæli um allt land. Áhersla er lögð á að vörur félagsins séu fyrsta flokks og að viðskiptavinir þess geti gengið að hágæða þjónustu vísri. Á Hólmsheiði áætlar Ölgerðin að reisa vatnsátöppunarverksmiðju sem nýtir vatn úr nærliggjandi brunni  

Þyrluþjónustur. Fyrirtæki í þyrluþjónustu hafa óskað eftir stóru landsvæði undir flugvöll sem myndi þjóna þeirra þyrlum. Reykjavíkurborg mun leggja áherslu á að skapa aðstæður sem væru opnar fyrir fleiri en einn rekstraraðila á sama sviði og skoða fleiri svæði á Hólmsheiði en núverandi athafnasvæði. 

Safari hjól er ferðaþjónustufyrirtæki sem rekur meðal annars fjórhjólaferðir við Úlfarsárdal í dag. Hugmyndir félagsins eru að byggja upp viðburðaferðaþjónustu á svæðinu í góðum tengslum við útivistarsvæðin í kring. 

Velferðarráðuneytið er að leita að lóð undir vistunarúrræði sem gæti samnýtt einhverja innviði með fangelsinu á Hólmsheiði. Mögulegt er að lóðin verði utan skipulags athafnasvæðis.  

Nánari upplýsingar og tengt efni: