Bókmenntahátíð í Reykjavík

Bókmenntahátíð í Reykjavík

Bókmenntahátíð í Reykjavík verður sett í sextánda sinn síðasta vetrardag, miðvikudaginn 19. apríl með pompi og prakt og stendur til sunnudagsins 23. apríl, sem er alþjóðlegur dagur bókarinnar.

Á hátíðinni gefst einstakt tækifæri til að heyra sögur og frásagnir heimsþekktra höfunda sem hingað eru komnir til þess að taka þátt í þessari veislu lesenda, höfunda, útgefenda, þýðanda og bókafólks. Dagskráin í ár er bæði fjölbreytt og spennandi: fyrirlestrar, samtöl á sviði og upplestrar að ógleymdu hinu sívinsæla Bókaballi.Sem fyrr er ókeypis inn á alla viðburði hátíðarinnar og þeir öllum opnir.

Þungavigtarhöfundar á heimsmælikvarða eru væntanlegir og munu taka þátt í hinum ýmsu viðburðum ásamt litríkum hópi íslenskra höfunda. Búast má við líflegum umræðum um heimsmálin, frásagnargleðina og hlutverk skáldskaparins í samtímanum.

Colson Whitehead er tvöfaldur Pulitzer-verðlaunahafi og í bókum sínum skrifar hann meðal annars um átök, kúgun og kynþáttahyggju í Bandaríkjunum. Hann er einn rómaðasti höfundur samtímans og lesinn um heim allan. Åsne Seierstad er blaðamaður og höfundur sem hefur sagt mikilvægar sögur frá mestu átakasvæðum heimsins í gegnum blaðagreinar og bækur. Dina Nayeri flúði heimaland sitt, Íran, ung að aldri með móður sinni og bróður. Á hátíðinni ræðir Dina við Birtu Björnsdóttur fréttamann á RÚV um kvennabyltinguna í Íran sem átti sér stað í fyrra, í kjölfar þess að ung kona lést í haldi lögreglunnar.

Afþreyingarbókmenntum verða einnig gerð góð skil því drottning ljúflestrabókanna, sjálf Jenny Colgan, kemur og tekur þátt í skemmtilegum umræðum um frásagnarlist og verður einnig í viðtali við Sólveigu Jónsdóttur rithöfund. Þá er að auki væntanlegur á hátíðina Alexander McCall Smith sem er íslenskum lesendum að góðu kunnur fyrir bókaflokkinn um Kvenspæjarastofu númer eitt sem naut gríðarlegra vinsælda þegar hann kom út og seldust bækurnar í bílförmu. McCall Smith er einstaklega lipur penni og á hann sér fjölmarga trygga lesendur hér á landi sem og annars staðar.

Þá verður sannkallaður stórviðburður þegar skáldið og rithöfundurinn Gyrðir Elíasson mun lesa upp ljóð og spjalla við Halldór Guðmundsson.

Til landsins er væntanlegur stór hópur erlendra útgefenda og blaðamanna sem tekur þátt í bransaprógrammi hátíðarinnar til þess að kynna sér rómað bókmenntalíf landsins en lestraráhugi Íslendinga og blómleg bókaútgáfa vekja jafnan athygli hjá bókaútgefendum erlendis. Þessi hópur mun taka þátt í alþjóðlegri ráðstefnu um réttindamál og stöðu þýðinga sem fram fer á hátíðinni.

Dagskráin fer fram í Iðnó, Norræna húsinu og víðar og hægt verður að fylgjast með í streymi líka. Dagskrána í heild sinni er að finna á heimasíðu hátíðarinnar. Hátíðin nýtur stuðnings Reykjavíkurborgar og menningar- og viðskiptaráðuneytisins, Félags íslenskra bókaútgefanda og Norræna hússins.

Bókmenntahátíð í Reykjavík