Árshlutareikningur sýnir jákvæðan viðsnúning en áframhaldandi áskoranir í rekstri

Fjármál

Loftmynd af miðborg og Vesturbæ Reykjavíkur í góðu veðri.

Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar janúar – júní 2023 var lagður fyrir borgarráð í dag, fimmtudaginn 7. september 2023. 

Áframhaldandi áskoranir í rekstri A-hluta vegna vanfjármögnunar þungra málaflokka 

Rekstrarniðurstaða A-hluta á fyrri hluta ársins 2023 var neikvæð um 0,9 milljarða króna. Halli af málaflokki fatlaðs fólks nemur um 4,8 milljörðum og hefði rekstrarniðurstaðan verið jákvæð um 3,8 milljarða ef málaflokkurinn væri að fullu fjármagnaður af hálfu ríkisins.

Tekjur borgarsjóðs vaxa umfram áætlanir og veltufé frá rekstri sýnir jákvæðan viðsnúning frá fyrra ári og er nú jákvætt um 7,6%. Hreinar skuldir sem hlutfall af tekjum fara lækkandi. Markmið aðgerðaáætlunar í fjármálum borgarinnar, sem samþykkt var samhliða fjárhagsáætlun, náðust og gott betur. 

Þó eru áframhaldandi áskoranir í rekstri á viðamikilli þjónustu borgarinnar. Laun og launatengd gjöld fóru 2,1 milljarði yfir fjárheimildir, meðal annars þar sem aukinn stuðningur við börn af erlendum uppruna, hátt veikindahlutfall og uppsöfnuð orlofstaka starfsfólks hafa kallað á aukna mönnun. Einnig má í árshlutareikningi sjá áhrif verðlagshækkana, aukinn kostnað tengdan úrræðum sem koma til vegna framkvæmda og viðhalds á starfsstöðum, kostnað umfram áætlanir vegna óvenju snjóþungs vetrar, auk þess sem vistgreiðslur vegna barna með þroska- og geðraskanir hafa aukist umfram áætlanir. 

Þensla í hagkerfinu og viðvarandi verðbólga hefur einnig mikil áhrif 

Þensla í hagkerfinu og viðvarandi verðbólga hefur það sem af er ári einnig sett mark sitt á rekstur borgarinnar. Seðlabanki Íslands hefur haldið áfram hækkun stýrivaxta til að ná tökum á verðbólgunni og voru þeir hækkaðir síðast þann 23. ágúst síðastliðinn um 0,5% og eru nú 9,25%. Það er mat Seðlabanka Íslands að þrátt fyrir að verðbólga hjaðni hratt í okkar helstu viðskiptalöndum og hafi verið að síga niður á við hérlendis, sé hún enn of mikil. Há verðbólga hefur áhrif á fjármagnslið í rekstri en á móti felur þenslan í hagkerfinu í sér hátt atvinnustig sem skilar hærri útsvarstekjum en áætlað var.  

Árshlutareikningur sýnir jákvæðan viðsnúning í A-hluta; auknar tekjur vegna fjölgunar borgarbúa, lítils atvinnuleysis og fjölgunar á vinnumarkaði. Veltufé frá rekstri styrkist og staða handbærs fjár er sterk.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri

Borgin að vaxa úr vanda síðustu ára 

„Árshlutareikningur sýnir jákvæðan viðsnúning í A-hluta; auknar tekjur vegna fjölgunar borgarbúa, lítils atvinnuleysis og fjölgunar á vinnumarkaði. Veltufé frá rekstri styrkist og staða handbærs fjár er sterk,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. „Borgin er að vaxa út úr vanda síðustu ára með auknum tekjum og aðhaldi í rekstri. Halli í málaflokki fatlaðs fólks heldur áfram að hafa áhrif á stöðuna en viðræður standa enn yfir við ríkið um leiðréttingu á þessu og fjármögnun málaflokksins. Verðbólga og ytri aðstæður á markaði lita niðurstöðu samstæðunnar í heild en undirliggjandi rekstur er sterkur.“ 

Reykjavíkurborg fylgir samþykktri fjármálastefnu 2023-2027, en hún var undirbúin í haust með hliðsjón af fjárhagslega erfiðri stöðu og ytra efnahagslegu umhverfi borgarinnar. Í stefnunni er skýr áhersla á að hallarekstri og erfiðum aðstæðum í alþjóðlegu efnahagsumhverfi verði mætt með vexti þróttmikils borgarsamfélags til lengri tíma en með markvissum aðgerðum í rekstri og samdrætti í fjárfestingum miðað við áætlanir síðustu ára til skemmri tíma, án þess að dregið verði úr öflugri sókn í uppbyggingu borgarinnar í samræmi við Græna planið og stefnumörkun þess. Skýr sýn er á græna og vaxandi borg fyrir fólk, sjálfbæran rekstur og fyrirbyggjandi aðgerðir til að lágmarka fjárhagslega áhættu í rekstri borgarinnar. 

Borgarráð samþykkti einnig í dag að undirbúa söluferli fyrir Perluna en tekist hefur að snúa rekstri hússins úr áratugalöngu tapi í arðbæra leigu.  

Frávik í rekstri b-hlutafélaga 

Rekstrarniðurstaða samantekins árshlutareiknings Reykjavíkurborgar, A- og B-hluta, var neikvæð um 6,7 milljarða sem var 12,8 milljörðum lakari niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir. Helstu frávik frá áætlun má rekja til fjármagnsliðar. Skýrist það af hærri verðbólgu á tímabilinu en áætlun gerði ráð fyrir, lækkun álverðs og minni matsbreytingum fjárfestingaeigna Félagsbústaða en áætlað var.  

Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) skilaði 23,1 milljarði í afgang sem var um tveimur milljörðum undir áætlun en fjórum milljörðum betri niðurstaða en á fyrri helmingi ársins 2022. 

Veltufé frá rekstri hjá A- og B-hluta nam 16,5 milljörðum króna á tímabilinu eða 13,5% af tekjum. Fjárfestingar að frádregnum seldum eignum námu 22,4 milljörðum. Greidd gatnagerðargjöld og seldur byggingarréttur nam 2,4 milljörðum. Lántaka og ný stofnframlög námu 30,4 milljörðum og afborganir lána og leiguskulda námu 16,9 milljörðum. Handbært fé í lok tímabils var 33,3 milljarðar króna. 

Borgarráð samþykkir að undirbúa sölu Perlunnar og skipar nefnd til að rýna ráðningar 

Borgarráð samþykkti einnig í dag að undirbúa söluferli fyrir Perluna en tekist hefur að snúa rekstri hússins úr áratugalöngu tapi í arðbæra leigu.  

Þá er lagt til að borgarráð samþykki að skipa þriggja manna nefnd til að rýna ráðningar á vegum sviða og starfsstaða Reykjavíkurborgar og fylgja eftir tímabundnum ráðningarreglum. Nefndin fundi vikulega og afgreiði umsóknir um ráðningar frá sviðum og miðlægum skrifstofum. Nefndin gefi út leiðbeiningar sem stuðli að gagnsærri og skilvirkri framkvæmd. Markmiðið með skipan ráðninganefndarinnar er að auka enn frekar yfirsýn Reykjavíkurborgar yfir ráðningar og aðhald með ráðningum í störf þar sem við á, í því skyni að draga úr launakostnaði. Ekki verði ráðið í laus störf þar sem því verður við komið. Í því skyni verði allar ákvarðanir um ráðningar í laus störf frá og með 1. október 2023 bornar undir ráðninganefnd. Þetta fyrirkomulag gildir til 31. desember 2024.  

Tilkynning til Kauphallar Íslands 7. september 2023