Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík RIFF hefst á morgun

RIFF, Alþjóðalega kvikmyndahátíðin í Reykjavík

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík RIFF hefst á morgun þann 28. september og mun standa til 8. október í Háskólabíói.

Opnunarmyndin að þessu sinni er Tilverur, frumraun Ninnu Pálmadóttur og lokamyndin er Poor Things eftir Yorgos Lanthimos sem hlaut Gullna ljónið í Feneyjum fyrr í mánuðinum.

Sýndar verða yfir 80 kvikmyndir í fullri lengd auk fjölda stuttmynda frá alls 63 löndum. Fjöldi Norðurlandafrumsýninga er á RIFF og margar myndanna koma hingað frá virtustu hátíðum í heimi s.s. Cannes, Feneyjum, Toronto og Rotterdam.  Því er um að ræða einstakt tækifæri til að sjá bestu myndir ársins en flestar myndanna verða ekki sýndar áfram í bíói hérlendis!

Sýningar í þessa ellefu daga fara fram í Háskólabíói sem er aðalsýningarstaður RIFF, en jafnframt í Norræna húsinu og í Slippbíói. Auk þess verður kvikmyndadagskrá RIFF út um alla borg – í litlum verslunum, bókasöfnum, gróðurhúsinu Lækjartorgi, hvalaskoðunarbáti og hótelum.

Myndirnar eiga það sammerkt að endurspegla það besta sem alþjóðleg kvikmyndagerð hefur uppá að bjóða.  Um er að ræða  nýjar gæðamyndir af ýmsu tagi eftir vel þekkta leikstjóra á borð við Luca Guardagnino, Wim Wenders, Werner Herzog, Catherine Breillat, Angelu Schanelec og Yorgos Lanthimos yfir í framsæknar kvikmyndir eftir nýja leikstjóra sem keppa um Gullna lundann. Sannkölluð meistaraverk þar sem oft eru farnar  nýjar leiðir í kvikmyndalistinni.

RIFF 2023