Þrjú frábær þróunarverkefni í leikskólum fá viðurkenningu
Í dag, á Degi leikskólans, var þremur leikskólum í borginni veitt hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs fyrir framúrskarandi fagstarf með börnum. Þetta voru leikskólarnir Drafnarsteinn, Stakkaborg og Laufskálar.
Læsisteymið í Drafnarsteini til fyrirmyndar
Í leikskólanum Drafnarsteini starfar læsisteymi sem leggur reglulega áætlun um skiplagða málörvun og læsi í leikskólastarfinu. Teymið fylgir eftir læsisáætlun leikskólans, fylgist með stöðu barna og veitir starfsfólki á deildum og foreldrum fræðslu og stuðning í vinnu við að örva mál og læsi. Í umsögn dómnefndar segir m.a.:
Í Drafnarsteini er farin árangurrík leið til þess að innleiða og viðhalda læsisstefnu leikskólans. Starf læsisteymisins er til fyrirmyndar og mikillar eftirbreytni fyrir aðra leikskóla.
Sérkennsluteymið í Stakkaborg stendur vörð um sérhvert barn
Teymi sérkennslu í Stakkaborg notar aðferðir sem hafa reynst afar árangursríkar í að efla þroska barna sem ekki fylgja jafnöldrum sínum. Elja, staðfesta og fagmennska teymisins hefur vakið athygli og var í tilnefningu sagt hafa afgerandi áhrif á líf og framtíð barna sem sækja leikskólann. Í umsögn dómnefndar segir m.a.
Starfsfólk sem starfar við sérkennslu í leikskólum fær því miður ekki oft mikla athygli.Teymi sérkennslu í Stakkaborg stendur vörð um þroska og velferð sérhvers barns og sýnir fagmennsku, hugrekki og staðfestu í sínu starfi.
Sjálfsraust og sterk sjálfsmynd í Laufskálum
Verkefnið Ég get, sjáðu mig! í leikskólanum Laufskálum snýst um að hvert barn kemur í leikskólann með hlut að eigin vali í tösku sem heitir Sýna og sjá. Börnin læra að bera virðingu og sýna kurteisi og tillitssemi þegar þau hlusta á aðra þegar hlutirnir eru sýndir og skoðaðir. Nýjasti hluti verkefnisins er að börnin segja frá því hvað þau langi að verða þegar þau eru orðin stór. Tekin er mynd af börnunum í búningum við grænt tjald og framtíðardraumurinn verði sýnilegur með „tölvutöfrum“. Í umsögn dómnefndar segir m.a.:
Ég get, sjáðu mig! er lifandi dæmi um verkefni sem eflir sjálfstraust og styrkir sjálfsmynd barna. Hér er á ferðinni framsækin áhersla og nýsköpun sem er gott mótvægi við aukna einveru á tímum Covid og aukinn skjátíma barna.
Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur veitir árlega hvatningarverðlauna fyrir framsækið skóla- og frístundastarf til að stuðla að stöðugu nýbreytni- og þróunarstarfi. Þetta mun vera í fimmtánda skipti sem verðlaunin eru veitt fyrir frábært leikskólastarf.
Verðlaunin eru í formi viðurkenningarskjals og málverks eftir Einar Baldursson listamann á Sólheimum.
Dómnefnd var skipuð Alexöndru Briem, Diljá Ámundadóttur Zoega, Elínu Oddnýju Sigurðardóttur, Jórunni Pálu Jónasdóttur, Erni Þórðarsyni, Andreu Sigurjónsdóttur og Albínu Huldu Pálsdóttur.
Á myndum má sjá handhafa hvatningarverðlaunanna í þessum þremur leikskólum sem afhent voru í dag starfsfólki og börnum í hverjum skóla.
Handhafar hvatningarverðlauna skóla- og frístundaráðs 2022