Sumarstörf fyrir 17 ára

Ungt fólk við garðyrkju.

Borgarráð samþykkti í dag fjármagn til sköpunar viðbótar sumarstarfa fyrir 17 ára einstaklinga í Reykjavík til að bregðast við því ástandi þegar 17 ára einstaklingar sækja um sumarstörf og fá ekki sökum aldurs.

Áætlað er að bjóða 200 sumarstörf fyrir 17 ára einstaklinga í Reykjavík í sex vikur fyrir hvert ungmenni. Reykjavíkurborg auglýsir í ár 1040 sumarstörf og í stóran hluti þessara starfa eru gerðar ríkari kröfur til starfsfólk og henta því síður 17 ára einstaklingum. Með samþykkt borgarráðs í dag verður bætt um betur störfum fjölgað fyrir þennan aldurshóp.

Störfin sem í boði verða eru m.a. á leikskólum Reykjavíkurborgar, við umhirðu borgarlandsins og hjá íþrótta- og æskulýðsfélögum.

Hjá íþrótta- og æskulýðsfélögum geta þessi viðbótarstörf orðið til þess að hægt er að fjölga leikjanámskeiðum, íþróttanámskeiðum og útivistarnámskeiðum. Störfin verða því til þess að auka við þjónustu barnafólks með því að bjóða öflugar sumarfrístund og sumarnámskeið í borginni ásamt því að fjölga atvinnutækifærum fyrir ungt fólk.

Áætlaður heildarkostnaður vegna  ráðninga í 200 störf í sex vikur er áætlaður 127 milljónir króna. Einnig var samþykkt að mynda starfshóp sem skoði fyrirkomulag á sumarstörfum til framtíðar fyrir 17 ára einstaklinga. 17 ára í starfleit skrái sig á biðlista vegna sumarstarfa og jafnframt eru ungmenni hvött til að fylgjast með auglýstum störfum á vef borgarinnar.