Skólasund, tíðavörur og fordómar rædd á landsþingi Samfés

Skóli og frístund

Samfés Landsþing 2022

Um eitt hundrað reykvískir unglingar frá 25 félagsmiðstöðvum úr borginni tóku þátt á Landsmóti Samfés sem haldin var í Stykkishólmi liðna helgi. Þar fá unglingar á aldrinum 13-16 ára tækifæri til að koma á framfæri hugmyndum og ábendingum er varða málefni ungs fólks.

Vilja að á þau sé hlustað

Alls tóku þátt um 420 unglingar frá 90 félagsmiðstöðvum af landinu öllu. Vegna veðurs þurfti að flýta dagskránni og ljúka viðburðinum á laugardagskvöldið til að tryggja að allir kæmust heim heilu og höldnu til síns heima.

Venju samkvæmt var á dagskrá lýðræðislegt kjör í Ungmennaráð Samfés, ball, fjölbreyttar valdeflandi umræðu- og afþreyingasmiðjur og landsþing ungs fólks sem í ár var haldið undir formerkjunum „Djörf, hugrökk og hávær“. Meðal þess sem kom fram á þinginu er að unga fólkið vill að á þau sé hlustað. Athygli vakti að margir töldu sig ekki hafa aðgang að skólasálfræðingi í sínum grunnskóla og ef slíkur væri til staðar væri ekki hægt að treysta að hann héldi trúnað. Almennt þótti þátttakendum þörf á breytingum á fyrirkomulagi skólasunds, fram komu ábendingar um að kynjaskipta hópum í námsgreininni og nýta stöðupróf í auknum mæli. Skólamál þóttu þátttakendum heilt yfir óspennandi og bentu á nauðsyn þess að finna leiðir til að auka áhuga íslenskra unglinga á þeim.

Segja tíðavörur jafn mikilvægar og klósettpappír

Þátttakendur töldu jafn mikilvægt að hafa tíðavörur aðgengilegar á salernum skóla, ekki síður en klósettpappír og aðgengi þyrfti að vera óháð aðkomu starfsfólks. Sumir hlakka til og aðrir kvíða fyrir útskrift úr grunnskóla. Þá taldi unga fólkið að taka þyrfti á auknu ofbeldi og fordómum hjá unglingum á Íslandi með því að hlusta betur á unglinga, styðja þau í að leita sér hjálpar og bjóða upp á markvissari fræðslu um afleiðingar ofbeldis og fordóma. Auk þess þyrfti að styðja betur við félagslega kerfið og barnaverndarnefndir.