Skóla- og frístundastarf hefst við óvenjulegar aðstæður

Covid-19 Skóli og frístund

Í dag eru börnin í Reykjavík að byrja aftur í skóla- og frístundastarfi eftir jólaleyfi. Það er því tilhlökkun og eftirvænting að hitta félaga og vini og takast á ný við nám, leik og starf. Vegna stöðunnar í heimsfaraldrinum eru þó mörg börn heima vegna einangrunar og sóttkvíar og einnig starfsmenn.

Í gær, mánudaginn 3. janúar, voru 7,3% starfsfólks, eða 431 starfsmaður, fjarverandi í borgarreknum og sjálfstætt reknum leik- og grunnskólum sem og borgarreknum frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum, ýmist vegna einangrunar eða sóttkvíar af völdum Covid-19.

Það er því viðbúið að komandi daga og vikur komi til einhverrar skerðingar í starfi leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva. Starfsfólk hefur kappkostað að undirbúa starfið fyrir börnin þannig að þau njóti sín í þessum flóknu aðstæðum. 

Foreldrar eru beðnir um að sýna þessum aðstæðum skilning og ekki senda barn sem sýnir veikindaeinkenni tengd Covid-19 í skóla- og frístundstarf.