Nýtt vistheimili fyrir ungmenni í Reykjavík
Velferðarráð hefur samþykkt að hefja undirbúning að stofnun nýs vistheimilis fyrir átta börn og ungmenni, þar sem börn geta dvalið til skemmri og lengri tíma. Á vistheimilinu verður unnið út frá hugmyndafræði um áfalla- og tengslamiðaða nálgun.
Um nokkurt skeið hefur verið ljóst að brýn þörf er á að byggja upp stærra og öflugra úrræði en vistheimilið Hraunberg, sem Barnavernd Reykjavíkur hefur rekið í áratugi. Það úrræði er fyrir ungmenni sem þurfa tímabundna vistun utan heimilis vegna sérstakra aðstæðna og er þar pláss fyrir þrjú ungmenni og eitt neyðarpláss. Því úrræði verður nú lokað og samið við Klettabæ ehf. um vistun fyrir allt að fimm ungmenni þar til hið nýja úrræði verður komið á laggirnar.
Á undanförnum árum hefur vandi margra þeirra barna sem þurfa á vistun að halda orðið flóknari. Því þykir nauðsynlegt að koma á fót úrræði sem mætir betur fjölþættum vanda þessara barna. Einnig þarf að fjölga plássum og skapa betri aðstæður til vistunar til lengri tíma.
Nýja vistheimilið mun einnig veita þeim börnum þjónustu sem hafa dvalið í Hamarskoti en það er einkaheimili þar sem börn hafa dvalið til lengri tíma. Á undanförnum árum hefur Barnavernd Reykjavíkur í auknum mæli leitað til Klettabæjar eftir þjónustu og hefur reynslan af því samstarfi verið góð.
Í Hraunbergi starfa 16 manns í um 11 stöðugildum og verða þau stöðugildi lögð niður. Mikil áhersla er lögð á að starfsfólk fái nauðsynlegan stuðning vegna breytinganna. Allra leiða verður leitað til að tryggja starfsfólki Hraunbergs störf við hæfi á velferðarsviði, en fjöldi starfa er laus í búsetuúrræðum og vaktavinnustöðum á velferðarsviði Reykjavíkurborgar.
„Við fögnum þessum mikilvæga áfanga í að byggja upp úrræði fyrir ungmenni sem þurfa að vistast utan heimilis til lengri og skemmri tíma. Við munum leggja allt kapp á að nýtt úrræði geti mætt þörfum og fjölþættum vanda þeirra barna sem þar þurfa að dvelja. Þangað til hið nýja úrræði opnar væntum við áframhaldandi góðs samstarfs við Klettabæ ehf., en við höfum góða reynslu af þeirri starfsemi og viðmót starfsfólks Klettabæjar gagnvart börnunum okkar hefur einkennst af virðingu, hlýju og skilningi. Þetta eru tímamót í starfsemi Barnaverndar Reykjavíkur og þökkum við starfsfólki Hraunbergs fyrir gott starf við krefjandi aðstæður undanfarna áratugi og hlökkum til áframhaldandi samstarfs við þau í öðrum verkefnum á velferðarsviði,“ segir Katrín Helga Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur.