Nemendur í Hagaskóla voru heimsóttir í dag en vegna viðhaldsframkvæmda er starfsemi skólans nú á þremur stöðum. Það er óhætt að fullyrða að nemendur taka raski á skólastarfi með jákvæðni og sveigjanleika.
Í Ármúla hafa nemendur í 9. bekk aðsetur en þangað er farið með rútu frá Hagaskóla. Nemendur í 8. bekk sækja skóla á Hótel Sögu og 10. bekkingar eru í nýjustu álmu Hagaskóla.
Fyrst var litið inn hjá 9. bekkingum Hagaskóla í húsnæði að Ármúla 30. Öll voru þau jákvæð og þó að leiðin sé löng sögðu nemendur að það væri stemning í rútunni og að til standi að taka upp fjöldasöng í rútunni með hækkandi sól. Viðmælendur í hópi nemenda töldu að þau gætu án efa haft það þokkalegt í Ármúla til vors.
Á gömlu Hótel Sögu hafa 8. bekkingar hreiðrað um sig og óhætt að segja að nemendur þar séu sáttir við hlutskipti sitt. Þau nefndu að birtuskilyrði væru betri, útsýnið fallegra og meiri ró í skólastarfinu. Sumir söknuðu þess að sjá ekki eldri nemendur skólans og taka þátt í félagsstarfi þvert á bekkjardeildir.
Að lokum var litið inn til 10. bekkinga sem eru nýjastu álmu Hagaskóla. Flest það sem var þeim efst í huga hafði meira með heimsfaraldur að gera en að það snerti viðhald skólabyggingarinnar. Þau söknuðu þess þó að mæta ekki yngri nemendum á göngunum, hafa böll og njóta þess að vera elst í skólanum. En þeim fannst verra að mega ekki hafa samskipti milli bekkja í sínum árgangi, fá ekki hádegismat í skólanum og að sökum faraldurs væri skóladagurinn styttri en ella.