Íbúðabyggð og almenningsgarður í stað steypustöðvar
Borgarráð hefur samþykkt samkomulag við B.M. Vallá ehf., vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar og þróunar á lóðunum Bíldshöfða 7 og Breiðhöfða 3 á Ártúnshöfða. Undanfarin ár hafa borgaryfirvöld átt í viðræðum við B.M. Vallá um lóðir þeirra á Ártúnshöfða til að ná fram áformum Aðalskipulags Reykjavíkur til 2040 um að breyta Ártúnshöfða úr atvinnu- og iðnaðarsvæði í blómlega íbúðabyggð.
Með samkomulagi um lóðirnar, sem eru um 42.000 fermetra verður heimilt að byggja íbúðarhúsnæði auk þjónustu- og atvinnuhúsnæðis sem og gerð nýrra gatna og gerð almenningsgarðs.
Í samræmi við samningsmarkmið Reykjavíkurborgar er samið um að á þessum reit líkt og öðrum verði allt að 20% íbúða skilgreindar sem leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, leiguíbúðir Félagsbústaða hf., búseturéttaríbúðir og/eða íbúðir fyrir aldraða. Félagsbústaðir hafa kauprétt á allt að 5% íbúðum á umsömdu föstu verði.
Bygging íbúða í hverfinu kallar einnig á byggingu grunn- og leikskóla. Ráðist verður í þær framkvæmdir í tengslum við og samhliða uppbyggingu íbúða í hverfinu.
Almenningsgarður og list í almenningsrýmum
Skógurinn í Fornalundi ásamt stoðveggjum sem eru á lóð B.M. Vallá verði grunnur að almenningsgarði sem teygir sig út í nýja byggð í Ártúnshöfða. Fornilundur á sér merka sögu en þar hófst skógrækt um miðbik síðustu aldar. Síðustu áratugi hefur verið lagður metnaður í að hlúa að svæðinu og fegra það. Umrætt svæði verður gert að opnu almenningssvæði á Ártúnshöfða og veitir nýrri byggð ákveðna sérstöðu.
Í nýrri byggð á Ártúnshöfða verður einnig veitt sérstöku fé til listskreytinga í almenningsrýmum utan lóða eða á húsum á svæðinu. Lóðarhafar í öllu hverfinu munu sameiginlega leggja til 300 millj.kr. og borgin leggur til jafn háa upphæð.
B.M. Vallá flytur á Esjumela/Álfsnes
Samkvæmt samkomulaginu veitir Reykjavíkurborg B.M. Vallá ehf. lóðarvilyrði fyrir um 70.000 fermetra lóð á Esjumelum/Álfsnesi þangað, sem samkvæmt áætlun, er að starfsemi fyrirtækisins flytji. Forsenda þess er að B.M. Vallá ehf. fjarlægi starfsemi fyrirtækisins á lóðunum Bíldshöfði 7 og Breiðhöfða 3 og flutningur skal hefjast eigi síðar en 28. febrúar 2028 og vera lokið ekki seinna en 31. desember 2030.