Fólki ekki vísað frá neyðarskýlum nema af brýnni þörf

Velferð

Að gefnu tilefni vill velferðarsvið Reykjavíkurborgar árétta að gestum neyðarskýla borgarinnar er ekki vísað út nema í algjörum undantekningatilvikum. Það er starfsfólki neyðarskýla erfið ákvörðun að hleypa einstaklingum ekki inn, enda ber það hag sinna gesta ávallt fyrir brjósti. Aðeins er gripið til þess ráðs ef einstaklingar hafa orðið uppvísir að alvarlegu ofbeldi sem ógnar starfsfólki og / eða öðrum gestum. 

Í Reykjavík eru þrjú neyðarskýli. Neyðarskýlið á Granda, þar sem eru 15 pláss, Gistiskýlið á Lindargötu, þar sem plássin eru 25, og Konukot, sem Rótin rekur fyrir hönd borgarinnar, en þar er pláss fyrir tólf konur. 

Nokkuð stór hluti þeirra sem skilgreind eru sem heimilislaus í Reykjavík nýta sér neyðarskýlin, eða um 30%. Langstærstur hluti heimilislausra, 163 einstaklingar eða 54%, nýta hins vegar húsnæði sem skilgreint er fyrir heimilislausa eða húsnæði með langtímastuðningi. 

Fastagestir neyðarskýla fá margir hverjir þjónustu vettvangs- og ráðgjafateymis Reykjavíkurborgar sem veitir fjölbreytta aðstoð, stuðning og ráðgjöf og miðlar upplýsingum um þjónustu sem er í boði. 

Þær ráðstafanir að veita fólki ekki aðgang að neyðarskýlum eru alltaf tímabundnar. Þegar slík ákvörðun er tekin reynir starfsfólk að ganga úr skugga um að einstaklingurinn sem um ræðir eigi í önnur hús að venda. Þegar upp koma ofbeldismál fylgir starfsfólk þeirri vinnureglu að leita aðstoðar lögreglu. Gott samstarf við lögregluna er algjört lykilatriði fyrir farsæla starfsemi í neyðarskýlum. 

Hér fyrir neðan er nýleg og ítarleg skýrsla um stöðu heimilislausra í Reykjavík í dag.